Kötturinn Michi, einnig þekktur sem „Sendiráðsköttur“ eða Cat-stro, er í öruggum höndum þrátt fyrir handtöku Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Eins og greint var frá á fimmtudaginn var uppljóstrarinn og blaðamaðurinn Julian Assange handtekinn í ekvadorska sendiráðinu í Lundúnum eftir að hafa verið fundinn sekur um að rjúfa tryggingu árið 2012, þegar hann leitaði til ekvadorskra yfirvalda um pólitíska vernd. Bandarísk yfirvöld hafa farið fram á að Assange verði framseldur sér til handa, svo hægt sé að sækja hann til saka vegna samráðs við Chelsea Manning.

View this post on Instagram

What a smeowgasbord! 😻 #cheese

A post shared by Embassy Cat (@embassycat) on

Eftir handtökuna vöknuðu spurningar um hvað hafði orðið um kött nokkurn, sem veitt hafði Assange félagsskap í langri dvöl sinni í sendiráðinu. Kötturinn hefur m.a. Instagram-síðuna „embassycat“. Netverjar höfðu miklar áhyggjur af því hvar kötturinn væri niðurkominn, og greindi The New York Times frá því að sendiráðið hefði ekki svarað fyrirspurnum sínum um köttinn.

Eins og áður segir var svo greint frá því í gær, á Twitter-síðu Wikileaks, að kötturinn væri í öruggum höndum. Assange hafði beðið lögmenn sína um að taka Sendiráðsköttinn úr sendiráðinu um miðjan október s.l. „Þeir verða sameinaðir á ný í frelsinu,“ segir jafnframt í Twitter-færslu Wikileaks. Með færslunni fylgir myndband þar sem sjá má köttinn, en í bakgrunni eru svipmyndir frá handtöku Assange til sýnis á sjónvarpi.