Háskólinn í Sussex gerði rannsókn í fyrra þar sem ríflega 800 einstaklingar sem tóku þátt í svokölluðum „þurrum janúar“, sem felur í sér mánaðarlangt áfengisbindindi, svöruðu spurningalistum. Niðurstöður rannsóknarinnar voru skýrar, það er töluverður og margþættur ávinningur fólginn í því að leggja áfengið á hilluna, hvort sem það er tímabundið eða til frambúðar.

Betri andleg líðan

Þó svo að áfengi geti aukið sjálfstraust tímabundið og hjálpað fólki að slaka á og njóta sín í góðra vina hóp þá vega neikvæðu áhrifin oftar en ekki þyngra. Mörgum þykir fátt jafn slakandi og það að fá sér einn stífan eftir erilsaman dag en þegar upp er staðið getur sá siður haft þveröfug áhrif, þá sér í lagi ef einn verður að tveimur og tveir verða að þremur. Þátttakendur í rannsókninni sögðust hafa tekið eftir bættri líðan, meiri orku og einbeitingu en óhófleg neysla áfengis hefur skaðleg áhrif á taugakerfið og eykur líkur á andlegum kvillum á borð við þunglyndi, kvíða og vanlíðan.

Minni líkur á sjúkdómum

Þó að hófdrykkja hafi oft verið lofsömuð í gegnum tíðina þá er ólíklegt að jákvæð heilsufarsleg áhrif drykkju trompi þau neikvæðu. Áfengisneysla er til dæmis talin geta aukið líkurnar á krabbameini í munnholi, hálsi, vélinda, koki, endaþarmi, ristli og lifur. Aðrar heilsuveilur sem áfengi er talið hafa áhrif á eru of hár blóðþrýstingur, ýmis hjartavandamál og heilabilanir.

Bættur svefn

Þá þarf varla að fjölyrða um mikilvægi þess að hvílast vel en þó að áfengi geti hjálpað fólki við að festa svefn þá eru áhrif þess á svefngæði og þar af leiðandi geðheilsu veruleg. Góður svefn er undirstaða góðrar heilsu og skilar sér í bættri heilastarfsemi, meiri einbeitingu, meiri orku og hreinlega meiri lífsgæðum.

Bættur fjárhagur

Óhóflegri áfengisneyslu fylgir oft dómgreindarleysi sem gerir það að verkum að auðveldara er að láta undan eyðslusemi. Eitt kvöld á barnum, nætursnarl og leigubíll getur kostað fúlgur fjár sem væri sennilega betur varið í eitthvað annað. Þátttakendur í rannsókninni sögðu að minni eyðsla hefði verið mjög áberandi fylgifiskur bindindisins.

Jafnvel hófdrykkja gæti reynst vafasöm. NORDICPHOTOS/GETTY

Áfengi og glæpir

Neysla áfengis getur ýtt undir árásargirni og þegar henni er blandað saman við dómgreindar- og hömluleysi geta afleiðingarnar verið grafalvarlegar. Þannig leikur áfengi oft og tíðum stórt hlutverk í áhættu- og ofbeldishegðun sem er bæði hættuleg einstaklingnum og öðrum. Er þar hægt að nefna bílslys og önnur slys, líkamsárásir, morð, heimilis- og kynferðisofbeldi, sjálfsskaða og sjálfsvíg. Dagbók lögreglunnar er til dæmis skýrt dæmi um þær alvarlegu persónu- og félagslegu afleiðingar sem áfengisneysla getur haft á einstaklinginn og samfélagið.

Betri og unglegri húð

Skaðleg áhrif áfengis á heilbrigði húðarinnar eru umtalsverð. Áfengisneysla er til dæmis vatnslosandi sem gerir það að verkum að húðin tapar mikilvægum raka, verður þurrari og hrukkurnar aukast og dýpka. Þátttakendur í rannsókninni sögðu að húðin hafi orðið fallegri, hreinni og bjartari, svitaholur minna áberandi og húðliturinn jafnari.

Þá hefur fátt ef nokkuð jafn endurnærandi áhrif á húðina og góður svefn en áhrif áfengisneyslu á svefngæði eru veruleg. Afleiðingarnar geta verið bólgur, bjúgmyndun, roði og sprungnar háræðar, svo eitthvað sé nefnt. Sé áfengis neytt óhóflega getur líkaminn enn fremur glatað mikilvægum vítamínum og steinefnum auk þess sem það veldur miklu álagi á lifrina sem nær þá síður að vinna úr öðrum eiturefnum.

Þá eru töluvert meiri líkur á því að þú gleymir að fjarlægja farða, hreinsa húðina eða til dæmis bera á hana næturkrem ef þú ert undir áhrifum. Það er ólíklegt að nokkurt krem hafi jafn góð áhrif á húðina eins og það að draga úr áfengisneyslu.

Þyngdartap

Tengslin á milli áfengisneyslu og þyngdaraukningar eru margþætt. Áfengi er afar hitaeiningaríkt og geta 1-2 drykkir auðveldlega innihaldið álíka magn af hitaeiningum og heil máltíð. Næringargildið er hins vegar ekkert og er því oft talað um tómar hitaeiningar í því samhengi. Ýmislegt bendir til þess að fólk innbyrði meira af mat sé áfengi drukkið með matnum. Áfengi skerðir líka dómgreindina sem gerir það að verkum að auðveldara er að láta undan freistingum og velja óhollari mat. Þá fær fólk meiri löngun í feitan og saltan mat, bæði meðan á neyslu stendur og daginn eftir en hugtakið „þynnkumatur“ ætti að vera flestum kunnugt. Oftar en ekki er þetta einna mest áberandi ávinningur þess að draga úr eða hætta neyslu áfengis og kom það skýrt fram í svörum þátttakenda í rannsókninni.

Betri stjórn á áfengisneyslu

Það sem var einna eftirtektarverðast úr rannsókninni var það að mánaðarbindindið virtist hjálpa þátttakendum að endurmeta og endurskilgreina samband sitt við áfengi. Meirihluti þátttakenda sagðist raunar hafa áttað sig á því að áfengi væri síður en svo nauðsynlegt í félagslegum aðstæðum. Þannig varð áfengisneysla þeirra mun hóflegri og heilbrigðari fyrir vikið. Þá mátti enn greina áhrif bindindisins í ágúst en stór hluti þátttakenda sagðist bæði drekka minna og ráða mun betur við áfengisneyslu í kjölfar bindindisins.

Dýrmætur ávinningur

Önnur atriði sem þátttakendur nefndu var betra (og öruggara) kynlíf og bætt samband við fjölskyldu og vini en hið síðarnefnda er flestum ómetanlegt. Þá var einn þýðingarmesti ávinningurinn fólginn í því að fólk hafði meiri tíma til þess að sinna sjálfu sér og öðrum, en tíminn er dýrmætur og þegar hann glatast þá fær maður hann aldrei aftur.