Borg Brugghús hefur verið stoltur styrktaraðili Hinsegin daga undanfarin ár og framleitt hinsegin bjórinn Ástrík sem notið hefur mikilla vinsælda og almennt verið vel tekið í senunni eftir því sem við höfum heyrt,“ segir Árni Theodór Long bruggmeistari, sem hefur bætt nýjum tón, Kysstu Mig Nr.T25, í áfengt regnbogalitrófið.

„Til að dýpka þekkingu okkar á hinsegin málum og sem tilraun til að ýta undir frekari og meiri umræðu um málefni hinsegin fólks, ákváðum við að gefa nú einnig út nýjan hinsegin bjór á flöskum,“ heldur Árni áfram og bætir við að Kysstu Mig sé frískandi og léttsýrt öl „með gommu af kirsuberjum og dass af vanillu“.

Áfeng fánaborg

Kysstu Mig streymir fram í öllum regnbogans litum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, en hann fæst í tíu mismunandi flöskum. „Vegna þess að við vildum líka halda áfram með hönnunarpælinguna á bak við Ástrík teflum við nú fram fánum tíu hinsegin hópa sem eiga sér fána sem kannski ekki eru jafn þekktir meðal almennings og regnbogafáninn sem prýðir Ástríksdósina,“ segir Árni en fánar kynsegin, tvíkynhneigðra, intersex, bear, varalitalesbía, pankynhneigðra, fjölkynhneigðra, eikynhneigðra, trans og BDSM eru á flöskunum.

„Við fórum þá leið að prenta þá fána sem þessir tíu hópar kenna sig við og smella þeim öllum á flöskurnar sem raðast svo handahófskennt í kippur og kassa. Þannig eru meiri líkur en minni á að allir tíu fánarnir séu í hverjum kassa. En þó ekki öruggt. Hugmyndin með þessu er að veita umræddum hópum aukinn sýnileika og við vonumst til að þeir taki þessu vel,“ segir Árni.

Sterkur leikur

„Við ákváðum bara að demba okkur í þetta. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég væri að fara út í en svo var þetta bara mjög skemmtilegt. Skemmtilegt að vekja athygli á þessu og vera með,“ segir Katrín Björk Kristjánsdóttir, sem svaraði kalli meðvitaðra bruggmeistaranna um að hjá þeim gæti skort á dýpri skilning á málefnum og tilfinningunum alls konar hinsegin fólks.

Katrín er í hópnum Hinsegin Ladies Nights sem hefur það yfirlýsta markmið að „koma saman konum og kynsegin einstaklingum sem heillast af konum á öllum aldri, bi, pan, lesbíur, forvitnar og allt þar á milli og utan“, eins og það er orðað.

Spes en góður bjór.

Þangað barst erindi brugghússins og „ég og kærastan mín, Guðný, vorum „mega“ til,“ segir Katrín um einfalda ástæðu þess að hún og Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir tékkuðu saman á kossinum merktum T125.

Katrín segir það klárlega sterkan leik hjá Borg að tefla fram flöskunum tíu. „Sérstaklega að setja þetta á markaðinn í svona áberandi umhverfi. Ég held að þetta opni augu margra og að fólk vilji kynna sér þetta betur þegar það sér þetta svona,“ segir Katrín sem hefur lagt blessun sína yfir bæði flöskurnar og innihaldið.

Í lagi að spyrja

„Það er til alls konar. Það er mikilvægt að vita það og ég held að þetta geti opnað umræður í partíum. Það er geggjað. Fólk kemur saman og fær sér mismunandi fána,“ segir Katrín og bætir við að hún hafi fullan skilning á að fólk geti verið feimið andspænis þeim litskrúðuga fjölbreytileika tilverunnar sem flöskurnar endurspegla.

„Ég held að málið sé bara að spyrja fólk hvernig það vill skilgreina sig og opna þá umræðu miklu meira. Fólk á ekkert að vera feimið við að spyrja hvaða fornafn fólk vilji nota eða hvernig það skilgreinir sig. Ég held það þurfi að opna meira umræðuna um að það sé bara í lagi að spyrja og fræðast,“ segir Katrín og efast ekki um að ólíkar flöskurnar geti virkað sem lóð á vogarskálarnar.

Spes en góður

„Við erum hrikalega ánægð með niðurstöðuna að næstum öllu leyti. En okkur tókst sem sagt að klúðra litatónum í einum fánanum í fyrstu framleiðslu og því ástæða til að biðjast strax afsökunar á því,“ segir Árni.

„Þetta er fáni tvíkynhneigðra, eða bi-sexual, og við vonumst til að sá hópur fyrirgefi okkur þessi mistök, sem við lofum að leiðrétta fyrir næstu prentun.“

Katrín telur víst að afsökunarbeiðnin verði tekin gild en áréttar mikilvægi þess að biðjast afsökunar á mistökum sem þessum. „En þetta eru bara mistök og fólk er að læra,“ segir Katrín sem sjálf er hæstánægð með flöskurnar og ekki síður innihaldið.

„Við fengum að smakka og fengum að taka kippu með heim. Við erum með árlegan Pride-brunch hjá okkur þannig að við ætlum bara að nota bjórinn í það í ágúst. Bjóða upp á þetta þar. Hann er ótrúlega góður.

Ég er mjög hrifin af honum. Hann er spes en hann er mjög góður,“ segir Katrín og hvetur fólk, í anda Kysstu Mig, til að „vera bara dugleg að fræðast og vera opin fyrir alls konar og fagna fjölbreytileikanum.“

Flöskurnar tíu skarta fánum; kynsegin (non-binary), tvíkynhneigðra (bisexual), intersex, bear, varalitalesbía (lipstick lesbian), pankynhneigðra (pansexual), fjölkynhneigðra (polysexual), eikynhneigðra (asexual), trans og BDSM.