Ólafur Þ. Harðarson, prófessor emeritus, birtist sem ljúfur vor-, ef ekki hreinlega sumarboði, í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut í kvöld en hann spásséraði í settið á fund Sigmundar Ernis Rúnarssonar, umsjónarmanns þáttanna, á stuttbuxum.

Þátturinn er númer 260 í viðtalsseríunni en sá fyrsti þar sem viðmælandi hefur mætt í stuttbuxum.Sjálfur segist Ólafur fara í stuttbuxur á fyrsta degi sumars og ekki virða síðar buxur viðlits fyrr en fyrsta vetrardag á hverju ári. Hann hafi byrjað að klæðast þeim hinum styttri buxunum í framhaldsnámi sínu í Bandaríkjunum fyrir meira en þrjátíu árum – og þar hafi sumarsíddin verið ráðin til frambúðar.

Einu gildi hvar hann fari á sumrin, stuttar skuli það vera, en hann minnist þess sérstaklega þegar hann var boðaður á fund Stjórnlagaráðs einn sumardaginn fyrir löngu, þeirrar hátimbruðu samkomu, en þar hafi hann staðið frammi fyrir þverskurði þjóðarinnar á stuttum, nema hvað.