Fyrsta frumsýning Íslenska dansflokksins starfsárið 2022–2023 er verkið Geigengeist eftir teknófiðludúóið Geigen næsta föstudag. Geigen samanstendur af tónskáldinu Pétri Eggertssyni og danshöfundinum og listakonunni Gígju Jónsdóttur. Frá árinu 2018 hafa þau unnið saman að því að útvíkka veröld fiðlunnar með ýmsum gjörningum.
Gígja: „Við erum svolítið að stækka okkar heim með þessu verki og erum komin með átta fleiri Geigen-verur inn í heiminn okkar sem eru dansarar frá Íslenska dansflokknum. Þannig fáum við líkamleikann í gegn enn betur, við höfum svolítið verið að fókusa á tónlistina áður. Auðvitað er performansinn alltaf sterkur en núna er líkaminn að koma betur fram.“

Samruni fiðlu og raftónlistar
Að sögn Gígju er hugmyndafræði og fagurfræði fiðlunnar í forgrunni verksins sem rennur svo saman við heim teknótónlistar og klúbbamenningar.
Gígja: „Geigen-heimurinn er svolítið samruni fiðlunnar og teknóraftónlistar, þannig að við erum líka að skoða teknódansa.“
Pétur bætir því við að í Geigengeist megi einnig finna fagurfræði barokk-listastefnunnar og vísindaskáldskapar. Spurður um hvort jafn ólíkar tónlistarstefnur og teknó og barokk eigi samleið segir hann:
Pétur: „Já, þær eiga klárlega samleið og það er bara kominn tími til að fiðlan fái aðeins að njóta sín í öðru umhverfi. Hún er búin að vera svolítið föst í einhverri staðalímynd og klassískri birtingarmynd. Okkar markmið með Geigen er að brjóta algjörlega þessar staðalímyndir og leyfa fiðlunni að njóta sín í nýju umhverfi.“
Þetta er svona kosmískur fiðluheimur, ef svo má segja, fiðlulaga vídd.
Fiðlulaga vídd
Geigen er þýska orðið yfir fiðlur en Pétur og Gígja stofnuðu Geigen-dúóið í San Francisco haustið 2018, þegar þau voru bæði í námi þar úti. Spurð um hvað einkenni Geigen-heiminn segja þau:
Pétur: „Þetta er svona kosmískur fiðluheimur, ef svo má segja, fiðlulaga vídd.“
Gígja: „Við erum að nýta okkur sögu og hefð fiðlunnar og setja hana í samhengi við framtíðina. Þátttaka hefur alltaf verið okkur mikilvæg. Það eru engir stólar í rýminu, áhorfendur koma inn og við erum að búa til einhvers konar klúbbaheim.“
Þau segja eitt markmið Geigen-verkefnisins vera að blanda saman ólíkum listgreinum en Gígja er með menntun í samtímadansi frá Listaháskóla Íslands og Pétur lærði tónsmíðar við sama skóla.
Gígja: „Þegar við vorum að byrja þetta verkefni Geigen fyrir 4-5 árum síðan, þá vorum við bæði í námi úti í Bay Area í Kaliforníu, ég var í myndlist og Pétur í tónlist. Við föttuðum að við spilum bæði á fiðlur og ákváðum að leika okkur smá með það. Svo vorum við bæði með þennan áhuga á teknótónlist og langaði að blanda því saman.“
Hafði aldrei snert fiðlu áður
Pétur og Gígja koma bæði fram í verkinu auk átta dansara frá Íslenska dansflokknum. Þau segja samstarfið við dansflokkinn hafa verið bæði þakklátt og lærdómsríkt.
Gígja: „Það er bara æðislegt að einhvern veginn holdgera þennan heim enn meira. Við höfum mikið verið að skoða Geigen-veruna og hvernig hún ber sig og hreyfir sig. Þá er mjög áhugavert að skoða hreyfiefni út frá fiðlunni sem slíkri.“
Spila dansararnir þá á fiðlur?
Pétur: „Við erum tíu saman á sviðinu og það eru tveir úr flokknum sem spila á fiðlu með okkur. Annar þeirra hafði aldrei snert fiðlu áður, þannig að við erum bara búin að vera að þjálfa hann í því. Á meðan er ég að þjálfast í dansi, ég hef náttúrlega enga dansmenntun.“
Verkið er unnið í samstarfi við Sean Patrick O’Brien listamann og búningahönnuðina Tönju Huld Levý og Alexíu Rós Gylfadóttur.
Pétur: „Við erum með þessa dásamlegu búningahönnuði og sviðsmyndahönnuð sem eru búin að vera í miklu samstarfi við hvert annað. Þau búa til algjöra galdra.“
Gígja: „Okkur fannst mjög mikilvægt að byrja ferlið á góðu samtali á milli okkar listrænu aðstandendanna, þannig að þetta væri byggt upp jafnfætis.“

Áhorfendum boðið að vera með
Verkið er þátttökuverk og að sögn Gígju var markmið þeirra Péturs frá upphafi að brjóta niður stigveldi listarinnar og bjóða áhorfendur velkomna inn í Geigen-heiminn.
Gígja: „Það var markmiðið að þeim liði eins og þau eigi heima hérna með okkur í þessum heimi. Við erum að byggja verkið upp þannig að við fáum þau með okkur í lið í lokin.“
Pétur: „Áhorfendur koma inn og þeim er frjálst að vera hvar sem þeim sýnist í rýminu því við tökum burt alla stóla. En svo má auðvitað vera passífur ef maður vill það.“
Eruð þið þá að skapa teknóklúbb á Litla sviði Borgarleikhússins?
Pétur: „Það má segja það, einhvers konar fiðlulaga klúbbaveröld.“