Sumartískan er með líflegasta móti í ár og er innblásin af straumum frá níunda áratugnum. Hún einkennist af ljósum litum og bleikum pastellitum, bláum tónum, blómamynstri, þægilegu sniði og léttum efnum.

Líflegir blómakjólar

Eitt er ómissandi í fataskápinn í sumar og það er fallegur, rómantískur blómakjóll, ýmist síður eða frekar stuttur. Kjólar með fíngerðu, jafnt sem stórgerðara blómamynstri eru vinsælir og passa við næstum hvaða tækifæri sem er.

Hægt er að klæða blómakjóla upp eða niður, allt eftir því hvert tilefnið er. Fyrir sérstaka viðburði eða veislur og partí er fallegt að vera í hælaháum sandölum við blómakjól, en við hversdagsleg tækfæri er flott að vera í strigaskóm, gallabuxum og jakka við kjólinn. Ekki er laust við að sumarkjólarnir í ár séu undir áhrifum hippatískunnar.

Buxur með beinu sniði

Gallabuxur fara aldrei úr tísku og er hægt að nota allt árið um kring. Þessa dagana eru gallabuxur með útvíðum eða beinum skálmum mjög vinsælar, en hver og einn ætti að geta fundið gallabuxnasnið að sínum smekk.

Sá litur sem er hvað eftirsóttastur er hvítur, en ljósbláar gallabuxur koma líka sterkar inn. Buxurnar eru almennt uppháar og frekar víðar í sniðinu svo þægindin eru í fyrirrúmi. Svartar buxur ganga auðvitað alltaf en það er gaman að breyta til yfir sumarið. Hægt er að nota gallabuxur hversdags jafnt sem spari, eftir því hvað notað er við þær. Gallabuxur henta vel sem vinnufatnaður og eru fínar við jakka og skyrtu en hversdagslegri við stuttermaboli eða háskólaboli. Þær eru líka smart við síðari skyrtur, skyrtur með púffermar eða sumarkjóla.

Strigaskór eru sumarskórnir í ár. Þeir geta verið allt frá því að vera klassískir upp í að vera frekar stórgerðir með áberandi mynstri.

Klassískir gallajakkar

Þegar kemur að heildarútlitinu setur gallajakki oft punktinn yfir i-ið. Gallajakki með klassísku sniði passar við nær allan fatnað og hentar í raun fyrir öll tækifæri, líka í sumarútileguna. Gallajakki og lopapeysa eru til dæmis skotheld tvenna.

Núna eru gallajakkar með fallegum smáatriðum vinsælir, til dæmis ísaumuðum myndum. Gallajakkar passa líka einstaklega vel yfir sumarkjóla og við síðbuxur.

Gallajakkar eru alltaf vinsælir á sumrin. Ísaumað mynstur lífgar upp á jakkann.

Strigaskór eru sumarskórnir

Yfir sumarið eru strigaskór sérlega hentugir, enda einstaklega þægilegir og gott að ganga á þeim. Klassískir strigaskór fara aldrei úr tísku en þetta árið eru strigaskór í ljósum litum jafnt sem svartir móðins, líkt og skór með lituðum röndum eða mynstri. Strigaskór með grófum botni og áberandi mynstri eru líka vinsælir.

Stórar púffermar

Skyrtur með púffermum eru komnar í tísku aftur og þeim mun stærri ermar, þeim mun betra. Slíkar ermar lífga sannarlega upp á heildarútlitið og gera það skemmtilegt.