Stundum er gott að vera bara heima og hafa það notalegt. Sérstaklega þegar veðurspáin er ekkert sérstök fyrir landið. Þá er bara að leggjast fyrir framan sjónvarpið með teppi og eitthvað gott að borða sem krefst ekki mikillar fyrirhafnar. Það er nú verslunarmannahelgi og þá er allt í lagi að veita sér eitthvað gott.

Hvernig væri að útbúa til dæmis litlar samlokur með heimagerðu túnfisksalati? Hér er uppskrift að mjög góðu salati.

Túnfisksalat

Þetta salat er auðvelt að gera. Þetta er ekki stór uppskrift en það má stækka hana ef fólk vill.

150 g túnfiskur í dós (má vera í vatni eða olíu eftir smekk)

1 smátt skorinn sellerístöngull

¼ rauðlaukur, mjög smátt skorinn

2-3 msk. majónes

1 msk. sýrður rjómi

1 sítrónubátur

Salt og pipar

Látið renna af túnfiskinum og brytjið hann með gaffli. Blandið síðan með sellerí og rauðlauk. Hrærið majónesi og sýrðum rjóma saman við og bragðbætið með sítrónusafa, salti og pipar. Gott er að láta þetta brjóta sig í smátíma í kæliskáp.

Kjúklingavængir eru sannkallaður sjónvarpsmatur og ofboðslega góðir.

Kjúklingavængir með parmesan

Kjúklingavængir eru sannkallað letifæði. Það er gott að grípa í þá og dýfa í bragðmikla sósu. Kjúklingavængirnir mega vera hvort sem er heitir eða kaldir þegar þeir eru bornir fram.

50 ml balsamedik

1,5 l vatn

2 msk. salt

1 lárviðarlauf

1 tsk. þurrkað timían

1 tsk. þurrkað rósmarín

1,5 kg kjúklingavængir

7 hvítlauksrif, smátt skorin

3 msk. ólífuolía

50 g brauðrasp, gjarnan panko

1 tsk. chilli-flögur

1 tsk. nýmalaður pipar

50 g rifinn parmesan ostur

Hitið ofninn í 250°C. Blandið saman ediki, salti, lárviðarlaufi, timian og rósmarin ásamt einum og hálfum lítra af vatni í pott. Látið suðuna koma upp. Setjið kjúklingavængina út í og látið þá malla í 15 mínútur. Takið þá upp úr, setjið á rist og látið þorna í 15 mínútur.

Blandið saman hvítlauk, ólífuolíu, raspi, pipar, chilli og parmesan osti í stóra skál. Veltið kjúklingnum upp úr blöndunni og raðið á bökunarpappír á ofnplötu. Það má alveg setja extra skammt af parmesan yfir.

Setjið í heitan ofninn og bakið í um það bil 30 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegnumsteiktur. Stráið meira parmesan yfir þegar hann er kominn úr ofninum.

Með kjúklingnum er gott að bera fram chilli-majó, sweet chilli sósu eða aðra sósu eftir smekk.

Hvernig væri að breyta poppinu með smá kryddi? Kannski sterku.

Smurbrauð

Hér koma nokkrar útgáfur af góðu brauði með lárperu. Þær þurfa að lagast stuttu áður en þær eru bornar fram

Veljið uppáhaldsbrauðið, snittubrauð, rúgbrauð eða jafnvel hrökkbrauð. Hér koma hugmyndir.

- Brauð með lárperu, parmaskinku, parmesan osti og þunnum sneiðum af rauðlauk.

- Brauð með lárperu, grilluðum kjúkling, fersku kóríander, límónu og chilli-sósu.

- Brauð með lárperu, mozzarella osti, ferskri basiliku og nýmöluðum pipar.

- Brauð með lárperu, reyktum laxi, sítrónu og dilli.

- Brauð með lárperu, rækjum, límónu og dilli.

Kryddað poppkorn

Þetta er einfalt að laga og mjög gott nasl. Byrjið á því að poppa í fulla skál.

Blandið saman:

100 g brætt smjör

4 msk. sriracha, chilli-sósa

1 hvítlauksrif, pressað

½ límóna

Hellið yfir poppkornið og hrærið vel saman.

Hummus er í miklu uppáhaldi hjá mörgum.

Hummus

Það er hægt að gera hummus á ýmsan hátt. Hér er uppskrift að hefðbundnum hummus en það má vel setja út í hann ýmsar kryddtegundir til að breyta bragðinu.

2 dósir kjúklingabaunir

2-3 stór hvítlauksrif

3-4 msk. tahini

Safi úr hálfri límónu

½ dl ólífuolía (meira ef þarf)

Hellið vökvanum af kjúklingabaununum. Setjið öll innihaldsefni í matvinnsluvél og maukið. Þegar hummusinn er kominn í skál má setja smávegis af jómfrúarolíu yfir og papriku eða chilli-duft.

Berið fram með ristuðu pítubrauði og grænmeti.