Hangikjöt er hinn eini sanni jólamatur okkar Íslendinga en við ættum hiklaust að nota það meira og við fleiri tilefni, til dæmis sem snakk til að maula eins og harðfisk á ferðalögum og þá passar tvíreykt hangikjöt og grafið ærkjöt einstaklega vel á ostabakka í stað kryddpylsa,“ segir Kristín Helga Ármannsdóttir, bóndi á Ytra-Hólmi, sem kann á því lagið að gera sælkerakrásir úr hangikjöti, og öllum kindamat.

Ytri-Hólmur er sauðfjárbú með yfir 600 ær. Þangað flutti Kristín árið 1980, þegar hún gekk að eiga bóndasoninn á Ytra-Hólmi, Brynjólf Ottesen.

„Ég er fædd og uppalin á Akranesi en var öll sumur í sveit og kunni til sveitaverka þegar ég gerðist sjálf bóndakona. Mér hefur þótt notalegt að búa svona skammt frá heimahögunum, en það hefur sína kosti og galla að búa á bæ sem er svo nærri bæði höfuðborginni og Skaganum. Því fylgir meiri erill, en ég er ekki nema tíu mínútur að skjótast eftir mjólkurpotti á Akranes,“ segir Kristín í bjarma ljósadýrðar frá Akranesi og Reykjavík hinum megin við fjörðinn.

„Við sjáum móta fyrir Hallgrímskirkju og þekktum kennileitum borgarinnar héðan frá Ytra-Hólmi og hér verður ekki þetta kolsvarta myrkur sem víða er í afskekktari sveitum og setur sinn svip á vetrarríkið í skammdeginu. Við finnum það vel þegar við förum í sveitir barnanna og höfum þá iðulega á orði hve myrkrið er þar svart, en svo komum við heim í okkar sveit þar sem alltaf er upplýstur himinn. Sveitalífið er engu að síður fagurt og friðsælt, og jólin umvafin kyrrð og ró og mér finnst alltaf ákveðin heilun að fara í fjárhúsið á jólum.“

Hér er tvíreykt hangikjöt sett út á salat með ostbitum, jarðarberjum, rauðkáli og melónu. Það gefur góða saðningu, er orkumikill matur og einstaklega gómsætt undir tönn. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Öll börnin orðin bændur

Þau Kristín og Brynjólfur eiga þrjú uppkomin börn sem öll eru farin að búa sem bændur á mismunandi stöðum; utan við Hvanneyri, á Snæfellsnesi og í Hrútafirðinum.

„Ég hélt reyndar að ekkert barnanna yrðu bændur en það er þessi ástríða fyrir dýrum og náttúru sem togar í fólk sem er alið upp í sveit, og svo var ástin í spilunum líka sem dró þau í aðrar sveitir lands,“ segir Kristín og brosir.

Hún fær afkomendur sína í hangikjötsveislu á jóladag en eftir að börnin hleyptu heimdraganum hafa þau Brynjólfur þann siðinn á að vera bara tvö í kotinu á aðfangadagskvöld.

„Það er afskaplega ljúft og kósí, og allt hefur sinn afslappaða tíma. Við tökum þetta í rólegheitum og hlustum á aftansönginn í útvarpinu á meðan maturinn mallar en stressum okkur ekkert á klukkunni. Áður vorum við alltaf með svínahamborgarhrygg til að uppfylla óskir barnanna en nú leggjum við á jólaborðið léttreyktan lambahrygg sem við framleiðum sjálf og ístertu í eftirmat,“ segir Kristín sem reykir lambahryggi eftir pöntun fyrir jól og sama fólkið kemur aftur og aftur.

„Léttreyktur lambahryggur er enda hreinasta sælgæti. Við eldun kemur aðeins ljúffeng sæta í hann og svo set ég gljáa á hann, eins og gert er við hamborgarhryggi.“

Grafið ærkjöt og tvíreykt hangikjöt er dásamlegt lostæti á jólalegum salatdiski með granateplum, melónukúlum, brokkólí, blómkáli og rósmaríni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Hangilærið fékk silfurverðlaun

Á Ytra-Hólmi fer fram ötult frumkvöðlastarf í framleiðslu kindaafurða og er lítil sveitabúð í hlaðinu en Kristín Helga fer líka með matvælin sem þau Brynjólfur framleiða á hina ýmsu sveita- og matarmarkaði. Þau hafa vakið athygli fyrir ljúffengi og meðal annars hlutu þau hjón silfurverðlaun Asksins fyrir úrbeinað, reykt lambalæri.

„Okkur þykir gaman að vinna allt sem okkur dettur í hug úr kindaafurðum. Það er til dæmis hægt að leika sér með hangikjötið á margan hátt, nota það út á upphaldssalatið sitt og það er kjarngott og seðjandi nesti og orkumikill matur á ferðalögum. Þannig kroppar minn hestahópur alltaf í grafið ærkjöt á meðan grillað er í hestaferðum og æðislegt að taka það upp sem snakk í lautarferðum,“ segir Kristín og leggur til tvær útfærslur af matarmiklum salötum sem er tilvalið að njóta á aðventunni, og í raun allan ársins hring.

„Uppskriftina spilar hver eins og hann vill með sinni eftirlætis salatblöndu, en ég nota gott salat í grunninn, sneiði út á það tvíreykt hangikjöt eða grafið ærkjöt og set út á steypta osta að smekk, sem fást í úrvali og passa einkar vel með kjötinu. Svo set ég dass af Sauðabólssósu út á salatið, en hana set ég saman úr ólífuolíu, balsamediki og bláberjum. Grafið ærkjöt og tvíreykt hangikjöt er líka frábær og bragðgóður forréttur, það er borðað hrátt og þarf ekkert að eiga við það. Bara að njóta bragðs af ám sem borða fjallagrös á Skorradalsafrétti og er kryddað og meðhöndlað eftir kúnstarinnar reglum.“

Kristín Helga verður á á jólamarkaðnum í Heiðmörk nú um helgina 28. og 29. nóvember og um næstu helgi, 5. og 6. desember. Einnig í Jólaþorpinu í Hafnarfirði allar helgar á aðventunni.

Sælkerarnir Kristín Helga og Brynjólfur búa til mýmargt nýstárlegt og gómsætt úr kindakjöti og er heimagerð Sauðabólssósan ómissandi með. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI