Nokkrir félagar í samtökunum U3A Reykjavík á aldrinum 65 til 85 ára tóku sig saman á dögunum og kortlögðu fimm gönguleiðir að menningararfi í Reykjavík. Kortlagningin var hluti af evrópska samstarfsverkefninu HeiM (Heritage in Motion) þar sem teymi eldra fólks í hverju samstarfslandi hannaði gönguleiðir á heimasvæði sínu.

„Háskólinn í Alicante bað okkur Hans Kristján Guðmundsson að vera með í verkefninu en við höfum áður unnið saman í Erasmus+ verkefni,“ segir Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir hjá U3A Reykjavík. „Þeim leist vel á okkur og við slógum til.“

Líkt og jafnaldrar þeirra í öðrum löndum verkefnisins kortlagði íslenski hópurinn fimm áningarstaði með hjálp snjallforritsins Wikiloc. Gengið var um menningarlegan og listrænan arf í Hólavallagarði, miðborg Reykjavíkur þar sem styttur voru skoðaðar, Laugarnes, Kirkjusand og farið í Sólstöðugöngu í Viðey.

„Hluti af verkefninu var að sýna fram á að eldra fólk getur líka gert hluti,“ segir Ingibjörg og hlær. „Við ákváðum sjálf hvaða svæði við vildum taka fyrir svo þetta var allt gert á okkar forsendum. Það var enginn sem sagði okkur hvaða leið við ættum að fara.“

Öflugur hópur

U3A – University of the Third Age (Háskóli þriðja æviskeiðsins) er ekki háskóli í eiginlegum skilningi, heldur alþjóðleg samtök sem leggja áherslu á virkni fólks á þriðja æviskeiðinu. Í samtökunum eru nú hundruð þúsunda meðlima um allan heim og milljónir ef Kína er talið með, en U3A Reykjavík var sett á laggirnar árið 2012. Stofnmeðlimir á fyrsta fundi samtakanna hér heima voru 18 talsins en félagið hefur vaxið og dafnað síðan þá og eru meðlimir nú um 900.

„Þetta vannst inn á orðsporinu,“ segir Ingibjörg. „U3A stendur fyrir alls konar viðburðum, heimsóknum og fyrirlestrum og við tökum þátt í alþjóðlegum verkefnum. Aðalmarkmiðið er að viðhalda andlegri virkni á efri árum.“

Ingibjörg var sjálf frumkvöðull að stofnun félagsins hér á landi.

„Ég var að velta fyrir mér hvað fólk gerði eiginlega þegar það hættir að vinna og rakst á þetta á netinu,“ segir hún. „Ég fór fór svo á heimsráðstefnu hjá þeim á Indlandi þar sem ég kynntist góðu fólki sem varð eins konar guðforeldrar félagsins hér á landi. Það má eiginlega segja að þetta hafi verið gert via Indland!“