Lettinn Kristaps Porzingis, sem leikur með Dallas Mavericks í NBA-körfuboltadeildinni í Bandaríkjunum, lenti í útistöðum við hóp Rússa á skemmtistað í heimabæ sínum Liepaja í Lettlandi í gær.

Porzingis er ansi knár körfuboltaleikmaður, en hann komst í stjörnulið deildarinnar í fyrra. Hann hefur jafnframt leikið með lettneska landsliðinu og þykir hann sérstaklega lipur miðað við stærð.

Lið Porzingis, Dallas Mavericks, komst ekki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í ár, og hefur miðherjinn knái nýtt tækifærið til að heimsækja heimalandið og kíkja út á lífið.

Að sögn ku Porzingis að hafa lent í útistöðum við hóp Rússa, sem voru ósáttir með að hann léki ekki lengur með New York Knicks, en hann skipti um lið í byrjun árs.

Eftir átökin náðist myndband af körfuboltastjörnunni, alblóðugum í framan og bolur hans rifinn. Porzingis virðist vera ansi heitt í hamsi af myndbandinu að dæma.

Miðherjinn hefur ekki tjáð sig um málið en fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina frá því að Dallas Mavericks séu að skoða málið og að vænta megi yfirlýsingu af þeirra hálfu.