Þegar Kjósin ómaði af söng, er nýútgefin bók sem varpar ljósi á öfluga söngmenningu Kjósarhrepps sem stóð með miklum blóma á 20. öldinni. Ágústa Oddsdóttir, annar höfunda bókarinnar, man vel eftir þeim tíma þegar hún ólst upp á Neðra-Hálsi þar sem faðir hennar, Oddur Andrésson, leiddi öflugt söngkórastarf.

„Árið 2016 komst ég að því að söngstarf föður míns og afa var að gleymast og hverfa ofan í glatkistuna,“ segir Ágústa. „Þegar ég ræddi við einstaka Kjósverja eða aðra sem höfðu mikil tengsl við Kjósina, höfðu þeir ekki hugmynd um það ríkulega kórastarf sem var í sveitinni nokkrum áratugum fyrr.“

Ágústa ákvað í kjölfarið að taka saman efni sem hún hafði safnað með hléum um árabil. Þar voru til dæmis samtöl sem hún átti við föður sinn og föðursystur, Ágústu Andrésdóttur, um heimilisbraginn og tónlistina sem þau Andrésarbörn ólust upp við í Kjósinni. Þá ræddi hún einnig við móður sína og söngfólk sem tók þátt í kórastarfi í sveitinni, um breytingarnar sem höfðu átt sér stað þar á liðinni tíð.

„Þegar ég hafði safnað drjúgum bunka af þéttskrifuðu efni hafði ég samband við Bjarka Bjarnason í Mosfellsbæ til að kanna hvort hann hefði áhuga fyrir að vinna efnið með mér í bók,“ segir Ágústa. „Hann gekkst inn á það og tók einnig að sér að ritstýra verkinu.“

Grunnurinn er til staðar

Ágústa Andrésdóttir, systir Odds, sagði þetta um uppvöxt systkina sinna á Bæ og á Neðra-Hálsi á fyrri hluta liðinnar aldar: „Pabbi, Andrés Ólafsson, las húslestur á kvöldin og heimilisfólkið, þar á meðal við systkinin, sungum sálm á undan og eftir lestrinum,“ sagði Ágústa eldri. „Pabbi æfði einnig raddaðan söng með okkur, einkum sálmalög og tók okkur gjarnan til kirkju þar sem við sungum með öðrum kirkjugestum.“

Oddur, faðir Ágústu yngri, stofnaði átján ára gamall kvartett ásamt bræðrum sínum, sem bætti síðar við sig og varð að oktett. Út frá þeim sönghóp skaut Karlakór Kjósverja rótum og starfaði óslitið til ársins 1960, þegar hann rann saman við Karlakór Kjósarsýslu. Á svipuðum tíma stofnaði Oddur einnig um 50 manna blandaðan kór með söngfólki úr nærliggjandi kirkjum í Kjós, af Kjalarnesi og úr Mosfellssveit.

Ágústa Oddsdóttir lýsir því að það hafi verið „alls konar“ að alast upp í Kjósinni á þessum mikla söngtíma. „Við krakkarnir vorum frekar hlustendur en virkir þátttakendur í söngstarfinu, utan þess að sum okkar sungu með kirkjukórnum á hátíðisdögum,“ segir hún og bætir við að grunnur til að glæða Kjósina sama sönglífi sé til staðar. „Löngunin til að tjá sig með söng og tónlist er rík hjá mörgum, ef ekki flestum, og hún getur orðið að veruleika með sameiginlegum vilja söngfólks í sveitinni.“