Konur sitja í forsætisráðherrastólum í öllum ríkjum Norðurlandanna að undanskildum Noregi. Erna Solberg hætti á síðasta ári eftir að hafa verið forsætisráðherra í tæp 8 ár. Katrín Jakobsdóttir er okkar forsætisráðherra og Mette Frederiksen hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2019. Svíar völdu konu í embætti forsætisráðherra í fyrsta skipti í fyrra, Magdalenu Andersson. Hún tók við af Stefan Löfven sem sagði af sér embætti forsætisráðherra í nóvember á síðasta ári. Þingkosningar verða í Svíþjóð um helgina og gaman verður að fylgjast með hvort hún haldi stólnum.

Finnski forsætisráðherrann og jafnframt sá yngsti á Norðurlöndum er Sanna Marin sem er fædd 1985 og því 37 ára. Sanna komst í alheimsfréttir fyrir stuttu vegna myndbirtingar. Sanna tók við embætti árið 2019. Forsætisráðherra Eistlands er Kaja Kallas og Ingrida Šimonytė í Litáen.

Bretar hafa nú aftur konu sem forsætisráðherra eftir að Liz Truss var kosin í embættið í stað Boris Johnson í vikunni.

Angela Merkel sem er nýhætt sem kanslari Þýskalands hefur setið lengst allra kvenna sem kjörinn þjóðarleiðtogi. Hún var fyrsti kvenkanslari Þýskalands og lengi talin ein valdamesta kona í Evrópu.