Bryndís Björk segir að karlar hafi ávallt í sögu félagsins verið fleiri en konur. „Konum hefur verið að fjölga á undanförnum árum þótt þær nái ekki helmingnum af félagsmönnum,“ segir hún. „Af sex manns sem fengu löggildingu í desember voru fjórar konur og tveir karlar,“ greinir hún frá.

Bryndís var varaformaður í tvö ár áður en hún varð formaður. Hún segir að reglurnar séu í föstum skorðum. Hefðin hefur verið að varaformenn eru kjörnir formenn eftir tveggja ára setu sem varaformenn ef þeir gefa kost á sér. Þær sem hafa setið á undan henni í formannsstóli eru Margrét Flóvenz frá 2007-2009 og Margrét Pétursdóttir, 2015-2017. Árið 1975 hlaut fyrsta konan, Guðríður Kristófersdóttir, löggildingu til endurskoðunarstarfa en síðan hefur vegur kvenna innan stéttarinnar vaxið jafnt og þétt.

Bryndís sem er alin upp á Skagaströnd segist ekki hafa farið hefðbundna leið í starfið. Hún hafði ekki gengið með endurskoðandadraum í maganum þótt hún hafi ávallt verið góð í stærðfræði. Hana dreymdi um að verða hönnuður og útskrifaðist sem iðnrekstrarfræðingur. Hún fékk vinnu á endurskoðendasviði hjá PwC eða PricewaterhouseCoopers ehf. Eftir að hafa starfið þar í nokkur ár ákvað hún að fara í meistaranám 2008 til að geta lokið löggildingarprófi í endurskoðun. „Ég fékk mikinn áhuga á þessari vinnu,“ segir hún en Bryndís starfar enn hjá PwC.

Miklar breytingar

Bryndís segir að starfið hafi breyst mikið á undanförnum 15 árum. „Með tilkomu þess að menn fóru að byggja vinnu sína á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum. Endurskoðunarfyrirtæki eru með mjög formfasta aðferðarfræði og endurskoðendavinnu. Einnig erum við með strangar kröfur um varðveislu og læsingu gagna. Það er talsvert mikið sem fólk þarf að læra til að geta sinnt þessu starfi. Maður þarf að kunna reikningsskil og reglur er varða þau. Alþjóðlega sem innlenda staðla og lög, skilja stjórnhætti ásamt góðri kunnáttu í félaga- og skattarétti. Auk þessa þarf að kunna lög um endurskoðun og endurskoðendastaðla sem unnið er eftir. Þá er krafa á endurskoðendum að fara í endurmenntun reglulega og það er eftirlit með henni. Endurskoðendur halda utan um endurmenntun sína í rafrænni skrá sem Félag endurskoðenda heldur síðan utan um fyrir félagsmenn sína. Endurskoðendaráð hefur eftirlit með því að endurskoðendur uppfylli þær kröfur sem settar eru. Enduskoðendur eru eftir því sem ég best veit eina fagstéttin sem sætir opinberu gæðaeftirliti,“ segir Bryndís.

Öflugt félag

Flest allir löggiltir endurskoðendur eru í félaginu, að sögn Bryndísar. „Tveir starfsmenn eru í fullu starfi hjá félaginu. Við erum með mjög virkt nefndarstarf í fastanefndum innan félagsins. Við gefum út okkar eigið blað einu sinni á ári og það fer að styttast í útkomu þess,“ segir hún. „Svo erum við með föst námskeið og ráðstefnur þannig að félagið er öflugt. Á síðasta ári hefur starfsemin verið rafræn og það hefur gengið vel,“ segir Bryndís og bætir við að atvinnuhorfur séu góðar í stéttinni. „Til að geta orðið endurskoðandi þarf að hafa meistarapróf í reikningshaldi og endurskoðun auk þess að hafa unnið á endurskoðunarskrifstofu í minnst þrjú ár áður en farið er í löggildingapróf.“

Gagnlegt nám

Bryndís segir að það sé talsverð eftirsókn í námið en ekki séu allir sem starfi á endurskoðendaskrifstofu eftir það. „Námið er gagnlegt fyrir þá sem ætla að vinna hjá fyrirtækjum sem fjármálastjórar eða aðalbókarar. Talsverður fjöldi endurskoðenda starfar hjá stórum fyrirtækjum frekar en að vinna við endurskoðun.“

Þegar Bryndís er spurð hvenær ársins sé annasamasti tíminn, svarar hún: „Þetta starf var þannig áður að það var eins og vertíðarvinna í lotum. Oft var meira að gera fyrri hluta ársins. Núna er þetta orðið jafnara yfir árið. Fyrri hlutinn fer gjarnan í stærstu fyrirtækin sem eru að birta reikningsskilin snemma árs og síðan koll af kolli. Minnstu fyrirtækin eru síðan að útbúa ársreikning og skattframtal fram eftir hausti,“ segir hún.

Draumar rætast

Bryndís kynntist eiginmanninum í heimabæ sínum á Skagaströnd. Hún segir að hér áður fyrr hafi hún einu sinni sagt við hann að hana langaði til að vinna í stóru fyrirtæki þar sem væri margt starfsfólk sem væri að gera það sama og kynni það sama. „Við gætum þar með rætt saman um vinnuna. Vinnan hjá PwC er ekkert fjarri þeirri ósk en mér datt samt aldrei í hug að ég yrði endurskoðandi,“ segir hún. „Þetta starf krefst þess að maður sér góður í samskiptum við fólk, við vinnum bæði í teymum innanhúss og sinnum þörfum viðskiptavina okkar. Mikilvægt hlutverk okkar er að skapa traust í viðskiptum og í efnahagslífinu. Sumir halda að þetta sér tilbreytingarsnautt starf en í raun er það mjög fjölbreytt. Við erum alltaf að kynnast nýju fólki og fyrirtækjum. Það gerir þetta starf sérstaklega skemmtilegt.“