Kristín er í veiðiklúbb sem eingöngu er skipaður konum og ber heitið Strekktar línur. Veiðiklúbburinn hefur vakið athygli fyrir stíl sinn og pikknikk-veislurnar sem töfraðar eru fram á metnaðarfullan hátt í hverri veiðiferð enda ekkert venjulegar kræsingar.

Veiðiklúbburinn Strekktar línur var stofnaður fyrir fjórum árum. „Í honum eru tíu forfallnar veiðikonur. Þær eru Charlotta Björk, Halldóra, Hulda, Margrét, Sandra, Sólveig Unnur, Unnur Valborg, Þóra Matthildur, Þórunn og ég. Ég tel mig vera ofurheppna að hafa fengið boð í hópinn og að eignast þessar frábæru vinkonur. Þótt við höfum ekki þekkst allar áður þá hefur dýnamíkin í hópnum verið frábær frá fyrsta kvöldi. Árlega förum við í eina skipulagða veiði saman og bröllum ýmislegt inn á milli. Gleðin er alltaf ríkjandi þegar við hittumst og veiðiferðirnar eru hreint ólýsanlegar enda fátt jafn gefandi og að vera í góðum hópi við fallega íslenska veiðiá,“ segir Kristín.

Næst er það Þverá

Kristín segir að þær séu búnar að stunda sömu ána frá því að klúbburinn var stofnaður. „Fyrstu þrjú árin fórum við í Hauku í Dölunum en nú erum við á leið í Þverá í Borgarfirði. Þverá er uppáhaldsáin mín og tilhlökkunin að fara með Strekktum línum þangað er í hæstu hæðum.“

Strekktar línur undirbúa veiðiferðirnar vel og fara vel klyfjaðar í hverja ferð. „Við höfum gaman af því að koma hver annarri á óvart til að mynda með litlum gjafapokum, sérmerktum nytjahlutum fyrir veiðiferðina og fleira og það er sko nostrað við hlutina. Þrátt fyrir að vera brjálaðar veiðikonur sem eru ávallt mættar á bakkann á réttum tíma, „því þetta veiðir sig nú ekki sjálft“, þá höfum við líka lagt mikið upp úr samverustundum á árbakkanum. Þær sem eru að veiða saman á stöng í ferðinni sjá um eina hamingjustund. Hvorttveggja áhuginn á að gleðja hópinn og metnaðurinn í veitingunum er mikill. Við þurftum því eftir fyrstu veiðiferðina að endurhugsa framkvæmdina því það eru nú takmörk fyrir hversu mörgum smáréttum konur geta torgað jafnvel þótt allar séu svangar eftir útiveru og æsta baráttu við laxa í íslenskri náttúru.“

Hittust til að fagna sumri

Stelpurnar styrkja böndin enn frekar með því að hittast á milli túra. „Við hittumst einnig utan veiðitímabilsins og höfum alltaf gert eitthvað saman á vorin eða í byrjun sumars til að ræða komandi veiðisumar, njóta samverunnar og spenningsins fyrir veiðiferð ársins. Stundum höfum við farið í kastkennslu til að fínstilla köstin en núna í ár fannst okkur tilvalið að hittast í kampavíni og smáréttum og fagna fyrsta degi sumars.“

Í þættinum Matur og heimili á dögunum buðu Strekktar línur áhorfendum að skyggnast inn í sumarboð sitt, sem haldið var heima hjá Kristínu sem var búin að dekka alvöru pikknikk-borð innandyra. Kristín bauð upp á glæsilegt hlaðborð sælkerasmárétta og deilir hér með lesendum nokkrum uppskriftum að syndsamlega góðum smáréttum. „Hér eru uppskriftir að ostakúlum, laxakremi og hugmynd að sælkeraspjótum. Allt réttir sem einfalt og fljótlegt er að útbúa og hægt er að töfra fram með stuttum fyrirvara.“

Æðislegar laxakremssnittur. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Laxakrem

500 g reyktur lax

150 g rjómaostur

Safi úr hálfri sítrónu

1 msk. piparrót eða eftir smekk

Basilíka eða aðrar ferskar kryddjurtir eftir smekk

Salt og pipar

Allt sett í blandara og maukað. Kælt í um klukkustund. Laxakreminu er sprautað á gott kex eða ofurþunnar ristaðar brauðsneiðar og skreytt með þynnum af reyktum laxi og ferskum kryddjurtum.

Pikk nikk borðið hennar Kristínar er hið glæsilegasta og gefur tóninn fyrir sumarið.

Ostakúlur

1 dós gamli rjómaosturinn frá MS eða annar rjómaostur af stífari gerðinni

2 bollar rifinn cheddar-ostur

½ bolli rifinn parmesan-ostur

1 tsk . Worcestershire-sósa

Salt og pipar eftir smekk

Stökkir beikonbitar, ferskar kryddjurtir, beyglukrydd „Everything bagel“ eða annað sem hugurinn girnist til að velta kúlunum upp úr

Hafið rjómaostinn við stofuhita. Mikilvægt er að nota rjómaost af stífari gerðinni annars er erfitt að móta kúlurnar, ef blandan verður of mjúk má bæta við rifnum cheddar-osti.

Hnoðið saman rjómaosti, cheddar-osti, parmesan-osti og Worcestershire-sósu. Kryddið með salti og pipar eftir smekk en hafið í huga hverju kúlunum er velt upp úr svo þær verði ekki of saltar. Best er að kæla blönduna í 1–2 klukkustundir á þessu stigi. Búið til litlar kúlur úr blöndunni og hafið í huga að kúlurnar verða aðeins stærri þegar þeim hefur verið velt til dæmis upp úr beikonbitum eða beyglukryddi. Veltið kúlunum því næst til dæmis upp úr söxuðum ferskum kryddjurtum, beikonbitum eða beyglukryddi. Mér finnst beyglukryddið best þessa dagana. Kælið kúlurnar þar til þær eru bornar fram. Vel er hægt að gera kúlurnar sjálfar daginn áður og velta þeim svo upp úr kryddinu áður en þær eru bornar fram.

Ekkert smá girnileg spjót í veiðiferð.

Sólar-hamingjuspjót af ítölskum uppruna.

Litlar mozzarella-kúlur

Steinlausar ólífur

Niðurskorin þistilhjörtu

Chorizo eða hráskinka

Sólþurrkaðir tómatar

Grillaðar paprikur í olíu

Tréspjót

Þessi spjót eru afar einföld en litrík og góð. Uppskriftin er einföld, raðið saman á spjótin hráefnunum sem þið eruð í stuði fyrir þann daginn. Raðið spjótunum á fat eða stingið þeim til dæmis í hálfa litla melónu þannig að úr verði kúla af spjótum. Passið bara upp á að þerra vel hráefni sem lagt hefur verið í olíu eins og sólþurrkaða tómata eða grillaðar paprikur áður en það er sett á spjótin.

Kristín býður hér upp á dásamlegar súkkulaðikúlur.
Vinkonurnar kunna að njóta vel, jafnt heima sem í sveitinni.
Hugmyndaflugið var látið ráða við gerð smáréttana.