Viðburðurinn fór fram í í höfuðstöðvum Arionbanka. „Konur voru hvattar til að skrifa sig inn í söguna og nýta kraftinn sem gustar af þeim eftir Sýnileikadaginn enda dagurinn vel heppnaður,“ segir Vigdís Jóhannsdóttir hjá Stafrænu Íslandi og stjórnarkona FKA og bætir við að reyndir viðburðarstjórar og félagskonur skipuðu Sýnileikanefnd FKA 2021. „Steinunn Camilla Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri, frumkvöðull og umboðsmaður Iceland Sync Management ehf., Anna Björk Árnadóttir viðburðastjóri, Íris E. Gísladóttir, eigandi Evolytes, og Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir hjá Wise lausnir ehf. eru konurnar á bakvið daginn með stuðning frá stjórn FKA.
Græn orka
„Þegar þú hefur tekið inn erindi á borð við Finndu drifkraftinn. Stattu upp úr í atvinnuviðtalinu, Stækkaðu kassann, Hvernig fæ ég sem mest út úr LinkedIn? Og þess á milli að hlusta á erindi um jákvæð samskipti, ástríðu og drifkraft þá er ómögulegt að fara að slóra. Þarna voru nokkrir af flottustu fyrirlesurum landsins sem eru löngu orðnir eigið vörumerki í atvinnulífinu sem voru að miðla til félagskvenna FKA,“ segir Vigdís. „Svo er bara að beisla þessa orku og það gerum við með stæl því nú um stundir er Sigmundur Ernir að fara yfir hóp umsækjenda úr hópi félagskvenna FKA sem vilja stýra þætti á Hringbraut og það er verið að leggja línurnar og þróa okkar stíl fyrir Hlaðvarp FKA sem verður kynnt betur þannig að það er allt á fullu.“

Sýnileiki, hreyfiafl og tengslanet í takt við nýja tíma hjá FKA
Félag kvenna í atvinnulífinu FKA eru félagasamtök fyrir konur sem eru stjórnendur og leiðtogar í íslensku atvinnulífi. Um er að ræða öflugt tengslanet kvenna úr öllum greinum atvinnulífsins, leiðandi hreyfiafl sem styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku. Félagið var stofnað árið 1999 og eru tólfhundruð konur í félaginu í dag. „Félagsaðild er frábær fjárfestingakostur fyrir konur til að læra, vaxa, tengjast og fjárfesta í sér og setja sig á dagskrá,“ segir í fréttatilkynningu um Sýnileikadaginn.

„Pálmar Ragnarsson fjallaði á kröftugan hátt um hvernig við getum nýtt ástríðu okkar til að ná framúrskarandi árangri, Maríanna Magnúsdóttir, Gerður Huld Arinbjarnardóttir og DJ Margeir gáfu félagskonum fjölbreytt tól í verkfærakassann er kemur að því að koma sér eða fyrirtækinu sínu áfram á samfélagsmiðlum og þannig mætti lengi telja,“ segir Vigdís.
„Kathryn Elizabeth fjallaði um listina að vera þú með því að nýta grunngildin til að móta starfsframa sinn, Brynja Gröndal mun fjalla um hvernig best sé að standa upp úr í atvinnuviðtalinu. Auður Inga Einarsdóttir, stafrænn markaðsstjóri Advania, fjallaði um lykilinn að því að halda vel heppnaðan stafrænan viðburð. Ragnheiður Aradóttir miðlaði trixum um hvernig við svörum erfiðu spurningunum og Silja Úlfars steig á svið.“

Öflugt starf um land allt
Stór hluti starfsemi FKA fer fram innan deilda, nefnda og heldur FKA úti öflugu starfi á höfuðborgasvæðinu og á landsbyggðinni þar sem hlutverk landsbyggðadeilda er að efla konur um land allt og styrkja tengslanet nærumhverfis. „Tæknin hefur fært félagskonur af landinu öllu nær hverri annarri á tímum Covid og aukið samtalið og jafnræði.“


