Valdís segir að á Hjartagátt komi einstaklingar sem eru að fara í ýmis hjartatengd inngrip eins og hjartaþræðingar, gangráðsísetningar, brennsluaðgerðir vegna hjartsláttartruflana og fleira. „Við sjáum um að kalla fólk inn til aðgerðar, undirbúum það fyrir inngripið og fylgjumst með því þegar það kemur til baka úr inngripinu. Eins fáum við skjólstæðinga til okkar sem þurfa að fara í rafvendingu en þá er einstaklingi sem er ekki í réttum hjartatakti gefið stuð á brjóstkassann svo hann komist aftur í réttan takt,“ útskýrir hún.
„Á Hjartagáttinni eru nokkrar göngudeildir starfandi og má þá nefna flýtimóttöku sem er svona hálfbráð göngudeild hjartalækna, göngudeild hjartsláttartruflana, göngudeild hjartabilunar sem sinnir skjólstæðingum með hjartabilun og göngudeild kransæðasjúkdóma sem sinnir eftirfylgd skjólstæðinga með kransæðasjúkdóm,“ upplýsir Valdís og bætir við að Hjartagáttin veiti bráðaþjónustu að vissu leyti.
„Einstaklingar sem greinast með bráða kransæðastíflu í sjúkrabíl eða á heilsugæslu koma beint til okkar á Hjartagátt og eru þá undirbúnir til þess að fara í hjartaþræðingu. Svo erum við á Hjartagátt í góðri samvinnu við bráðamóttökuna í Fossvogi og tökum til okkar einstaklinga sem þurfa að fara í bráð inngrip tengd hjarta.
Hjartagáttin er daggöngudeild þannig að langflestir sem koma til okkar fara aftur heim samdægurs. það getur þó verið breytilegt hversu marga klukkutíma skjólstæðingurinn dvelur hjá okkur, en það fer eftir eðli inngripsins.
Það eru þó alltaf nokkrir skjólstæðingar á dag sem þurfa að leggjast inn yfir nótt eða lengur og þá flyst viðkomandi upp á hjartadeildina,“ segir Valdís. Hún segir að það geti verið ólík einkenni hjá körlum og konum sem koma á Hjartagátt en það sé ekki algilt.
„Kransæðastífla getur birst með ódæmigerðari einkennum hjá konum og þar má nefna þrýsting á bringu og verkur yfir allan brjóstkassann en ekki bara vinstra megin. Einkenni eins og kviðverkur, ógleði, mæði, svimi og mikil þreyta geta einnig bent til kransæðastíflu.
Það er óhætt að segja að þegar konur eiga í hlut þá er mikilvægt að vera vakandi fyrir þessum ódæmigerðari einkennum.“