Þorgerður Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari hjá Táp Sjúkraþjálfun og sérfræðingur í kvensjúkdóma- og fæðingarsjúkraþjálfun, skrifaði pistil á dögunum um hvenær eðlilegt sé að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu. Hún segir flesta ekki gera sér fullkomlega grein fyrir því sem gerist í fæðingu og áhrifum þess á konuna.

„Oftast fullkomlega eðlilegt ferli en innifelur þó svo margt sem veldur breytingum. Margir hafa líkt fæðingu við íþróttaáverka og má finna margt sameiginlegt með þessu tvennu,“ segir Þorgerður í pistlinum sem hún birti á Facebook-síðu sem hún heldur úti. „Vöðvar, himnur og liðbönd togna, það getur orðið skaði á vöðvum og á slímhúðum í fæðingarvegi. Stundum þarf að klippa og sauma og það þarf að gróa. Það getur verið erfitt að pissa.“

Hvenær ætti ég að byrja að stunda kynlíf eftir fæðingu? Þessi pistill er eiginlega meira til karlmanna sem eru að verða...

Posted by kvenheilsa on Thursday, November 7, 2019

Hún segir þá að sterk þyngsla- og þreytutilfinning geti verið til staðar í grindarbotninum í langan tíma eftir fæðingu. „Úthreinsun eftir fæðingu í nokkrar vikur er líka staðreynd. Legið var jú að ýta út heilu barni og fylgju sem er stærðarinnar líffæri.“

Þorgerður segir fæsta átta sig á öllu því sem gerist í líkamanum við fæðingu.

67% upplifa sársauka við samfarir eftir tvo mánuði

Samkvæmt gögnum úr doktorsritgerð Þorgerðar eru 67% kvenna, sem eru byrjaðar að stunda kynlíf um tveimur mánuðum eftir fæðingu, með sársauka við samfarirnar. „Og það á líka við um keisarakonurnar. Og vá hvað maður er þreyttur á þessum tíma! Ekki gleyma því heldur að kroppurinn er búin að taka 9 mánuði í að leyfa nýju lífi að dafna,“ heldur hún áfram.

Þorgerður biðlar til maka að sýna konunni skilning og stuðning eftir fæðingu og að þrýsta ekki á safarir því hún þurfi tíma til að ná sér. „Þetta þarf að vera á hennar forsendum og á hennar tíma. Það er ekkert til sem heitir réttur til eins né neins. Konur eru ekki fullnægingarvélar fyrir maka. Ekki halda að allir aðrir séu að gera það meira og oftar en þið,“ segir hún. Svarið við því hve lengi eigi að bíða eftir fæðingu með að stunda kynlíf sé því „bara þegar konan er tilbúin til þess og ekki fyrr.“