Meydómur heitir fjórða skáldsaga Hlínar Agnarsdóttur. Bókin er sannsaga sem er bæði bréf til föður Hlínar og uppgjör á ofbeldi sem hún varð fyrir sem ung kona. Hlín segir #MeToo-umræðu síðustu ára hafa vakið upp miklar vangaveltur um þá drusluskömmun sem hún og konur af hennar kynslóð beittu sjálfa sig.

Hlín Agnarsdóttir hefur unnið jöfnum höndum sem rithöfundur, leikskáld, leikstjóri og gagnrýnandi svo áratugum skiptir. Hún sendi í haust frá sér sína fjórðu skáldsögu, sannsögu sem ber titilinn Meydómur. Hlín segir bókina í senn vera bréf til föður síns og bréf til hennar sjálfar sem ungrar stúlku.

„Bókin heitir Meydómur og fjallar um leið stúlkubarns frá sakleysi bernskunnar til uppreisnar unglingsáranna, það er svona hin klassíska kynning á bókinni. En hún fjallar voðalega mikið um æskuna eins og hún kom okkur fyrir sjónir, sem ólumst upp í Reykjavík á sjötta og sjöunda áratugnum og fram á áttunda áratuginn. Bókin spannar brot frá fyrstu sextán árunum í lífi mínu og þess vegna kalla ég hana sannsögu,“ segir Hlín.

Erfitt og viðkvæmt efni

Að sögn Hlínar á bókin rætur sínar að rekja til ljóðahandrits sem hún skrifaði árið 2007, en byrjaði svo að útfæra sem prósaverk 2013. Ljóðunum er dreift í gegnum verkið og myndar prósinn eins konar vef í kringum þau. Þá segir Hlín sannsöguna henta einkar vel til að blanda saman þessum ólíku formum, en sem bókmenntagrein stendur hún á mörkum skáldskapar og ævisögu.

„Það hefur verið gefandi í sjálfum skrifunum að fást við einmitt þetta. En það hefur líka verið flókið og tekið langan tíma. Ég byrja að skrifa þessa bók 2013, legg hana síðan til hliðar og skrifa skáldsögu til þess að hvíla mig, því þetta er mjög erfitt og viðkvæmt efni sem fjallar meðal annars um ofbeldi innan fjölskyldu. Um það hvernig stúlka breytist í konu. Þetta er saga um það hvernig kvenleikinn verður til og eiginlega get ég sagt að þetta sé einhvers konar afmeyjunarferli í margs konar merkingu orðsins,“ segir hún.

Meydómur er fjórða skáldsaga Hlínar Agnarsdóttur.

Þetta er mjög persónuleg bók sem fjallar um átakanlega atburði. Var erfitt að ganga svo nærri sjálfri þér?

„Ég er náttúrlega orðin mjög fullorðin manneskja og ákvað fyrir mitt leyti að nú væri kominn tími til að tala hreint út um ákveðna hluti. Það má eiginlega segja að það ofbeldi sem ég hef orðið fyrir hafi legið á mér eins og mara í gegnum allt lífið. Auðvitað var þetta erfitt og það sést allt á því hvað þetta er búið að taka langan tíma. En svo er ég líka bara mjög sátt við að hafa gefið sjálfri mér tækifæri til að losa mig við þetta.“

Tabú að ræða kynferðisofbeldi

Undanfarin ár hafa konur í sífellt meiri mæli stigið fram og sagt frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Hlín tók sjálf virkan þátt í kvenréttindabaráttunni upp úr 1970 þegar hún var ung stúlka, en hún segir mikið vatn hafa runnið til sjávar síðan þá og fannst tíminn vera kominn til að segja sína sögu.

„Það sem ég er meðal annars að skrifa um í þessari bók er það hvernig ég og fleiri konur af minni kynslóð drusluskömmuðu sjálfar sig. Umræða undanfarinna ára um kynferðisofbeldi gagnvart konum hefur vissulega vakið upp hjá manni ýmsar pælingar um það hvernig þetta var í mínu lífi sem ung kona. Þetta var svo mikið tabú á okkar tímum. Þrátt fyrir alla þessa kvenfrelsisumræðu og þrátt fyrir þessar svokölluðu frjálsu ástir sem komu í kjölfar hippatímans. Það voru í raun og veru bara frjálsar ástir fyrir karlmenn, konurnar voru enn þá viðföng karlmanna,“ segir Hlín.