Tómas Gauti Jóhannsson, leikari

„Sem konungur sóttkvíarinnar á Íslandi, hafandi farið sex sinnum í sóttkví, tel ég mig helvíti góðan í þessum málum og get gefið mörg góð ráð. Það sem skiptir fyrst og fremst máli er fjölbreytileikinn. Ég gerði til dæmis þau mistök að hámhorfa á fjórar seríur af Survivor í einni sóttkví og það var bara of mikið.

Í síðustu sóttkví vann ég með nokkra hluti. Sjónvarpsgláp, tölvuleikjaspil, bóklestur, borðspil og áhugamál sem setið hafa á hakanum vegna tímaskorts. Líttu á sóttkvína sem tækifæri, því að þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Þetta er risastórt tækifæri til að horfa á sjónvarpsþætti sem þú átt enn eftir að sjá.

Ég átti til dæmis eftir að horfa á Lost og sá þarna tækifæri til þess sem ég mundi aldrei fá aftur. Ég hefði aldrei klárað Lost ef ég hefði ekki farið í sóttkví.“

Tómas Gauti er færasti maður landsins í sóttkví.

Succession-refsing

„En jæja, þá að meðmælum. Fyrir það fyrsta ef þú hefur ítrekað frestað því þá er þetta rétti tíminn til að klára að horfa á þætti eins og Breaking Bad, The Wire og fleira í þeim dúr.

Af nýjum þáttum myndi ég mæla með Succession. Succession-sóttkví hljómar eins og draumur enda eru þetta bestu þættirnir í dag. Engin spurning. Ef þið eigið það eftir er alheimurinn einfaldlega að refsa ykkur með sóttkvínni. Þá þurfið þið líka að tékka á Dopesick, átta þátta seríu um ópíóíðafaraldurinn. Better Call Saul er svo algjör gimsteinn.

Svo er alltaf gaman að kíkja á eldri seríur af Survivor ef þið gáfust upp eftir nokkrar seríur. 28. sería er sú besta. Prófið. Þið munið ekki sjá eftir því.“

Tómas Gauti veit hvað hann syngur þegar það kemur að afþreyingu.

Horfin af yfirborði jarðar

Ég mæli með hlaðvarpsseríunni The Dropout. Ótrúlegir þættir um það hvernig Elizabeth Holmes bjó til eitt stærsta tæknifyrirtækið í Kísildalnum í Kaliforníu úr engu nema einskærum lygum. Réttarhöld yfir Elizabeth eru í gangi í dag.

Svo er serían The Rabbit Hole frábær ef þið viljið reyna að skilja Qanon-samsæriskenninguna og öfgahægri antí-Covid-liðið betur. Cryptoqueen er svo önnur frábær sería um góðvinkonu Ásdísar Ránar, Ruja Ignatova, sem bjó til rafmynt og er núna horfin af yfirborði jarðar. Þetta er svakalegasta hlaðvarp sögunnar og eiginlega það allra lygilegasta sem ég hef hlustað á.

Borðspilin koma ykkur langt

Þegar þið eruð farin að missa vitið þá geta borðspil komið ykkur langt. Ég get mælt með Chronicles of Crime en þar leysið þið ótrúleg mál. Það er hægt að nota spjaldtölvu með spilinu þar sem þú skoðar glæpavettvanga og átt að finna út hvað gerðist.

Svo er Pandemic Legacy Season 1 spilið vel við hæfi þar sem markmiðið er að bjarga mannkyninu frá heimsfaraldri á tólf mánuðum. Eitt af bestu spilum allra tíma og þið getið loksins sett ykkur í stellingar Þórólfs og rekið veiruna á brott.