Það virðist engin í konungs­fjöl­skyldunni vera til­búin að taka Harry Breta­prins í sátt, í kjöl­farið á út­gáfu bókarinnar Vara­skeifan (e. The Spare). Í bókinni leysir Harry frá skjóðunni um ýmis mál og deilt frá áður ó­heyrðum leyndar­málum um konungs­fjöl­skylduna.

Að sögn heimildar­manns innan konungs­fjöl­skyldunnar munu með­limir hennar ekki svara neinum af þeim á­sökunum sem Harry ber þeim í bókinni. Konungs­fjöl­skyldan er hrædd um að einka­sam­töl verði notuð gegn þeim sem stað­festing á frá­sögnum sem koma fram í bókinni.

Harry hefur í­trekað reynt að ná sáttum við fjöl­skylduna sína, en sam­kvæmt heimildar­manninum er ekkert traust lengur til staðar milli prinsins og konungs­fjöl­skyldunnar. Það ætti ekki að koma á ó­vart, enda virðist Harry koma með nýjar meiðandi full­yrðingar um hátt­setta með­limi konungs­fjöl­skyldunnar.

Meðal þess sem Harry segir í bókinni er að bróðir hans, Vil­hjálmur Breta­prins, hafi ráðist á sig árið 2019 í kjöl­far rifrildis þeirra um eigin­konu Harry, Meg­han Mark­le.

Einnig segir Harry frá því að hann hafi neytt kókaíns, of­skynjunar­sveppa og kanna­bis­efna á lífs­leiðinni.