Breska konungs­fjöl­skyldan fékk því fram­gengt að fimm stuttar klippur úr jarðar­för Elísa­betar Bret­lands­drottningar verði eytt og ekki sýndar aftur. Breska blaðið The Guar­dian greinir frá þessu.

Segir blaðið að málið endur­spegli flókið sam­band konungs­fjöl­skyldunnar við breska fjöl­miðla. Um er að ræða sam­komu­lag við frétta­stöðvar sem gerir konungs­fjöl­skyldunni kleyft að fá að velja og hafna hvaða klippur njóta dreifingar úr jarðar­förinni eftir að jarðar­förinni sjálfri og beinni út­sendingu er lokið.

Breska konungs­fjöl­skyldan sendi skeyti til BBC, ITV News og Sky News á meðan jarðar­förinni stóð með tíma­stimplum af mynd­efni sem hún vill ekki að verði sýnt aftur í fjöl­miðlum eða á sam­fé­lags­miðlum. Úr varð að fimm stuttar mynd­bands­klippur var eytt, eins og áður segir í fréttinni.

Í frétt breska blaðsins segir að þrátt fyrir að um­ræddar klippur hafi verið stuttar, hafi á­kvörðunin um að gera slíkt sam­komu­lag við konungs­fjöl­skylduna farið öfugt ofan í suma blaða­menn í Bret­landi. Segir í um­fjöllun Guar­dian að málið endur­spegli spennuna sem oft á tíðum ríki á milli blaða­manna og konungs­fjöl­skyldunnar, sem geri sitt besta til að hafa á­hrif á um­fjöllun konungs­fjöl­skyldunnar.

Ó­klippt út­gáfa af jarðar­förinni verður í boði fyrir Breta á mynd­bands­spilara BBC í mánuð. Eftir þann mánuð verður þeirri klippu eytt og þurfa breskar stöðvar að ræða annað sam­komu­lag við konungs­fjöl­skylduna um hvaða hluta má sýna úr jarðar­förinni eftir það.

Nærri 30 milljónir manna horfðu á jarðar­förina í Bret­landi. BBC vann að út­sendingunni í sam­vinnu með ITV og Sky News sjón­varps­stöðvunum til að tryggja nægi­legt magn mynda­véla og búnaðar til að ná utan um við­burðinn.

Banda­ríska her­toga­ynjan Meg­han Mark­le hefur áður lýst furðu sinni yfir sam­bandi bresku konungs­fjöl­skyldunnar við bresk götu­blöð. Þannig sagði hún við Opruh Win­frey í fyrra að bresk götu­blöð og konungs­fjöl­skyldan ættu í nánu sam­bandi, svo nánu að blaða­menn götu­blaðanna væru oft svo gott sem vinir mikil­vægra með­lima í fjöl­skyldunni.