Konungs­fjöl­skyldan er sögð vera á nálum þessa dagana vegna væntan­legrar ævi­sögu Harry Breta­prins. Gustað hefur um konungs­fjöl­skylduna undan­farin misseri og hefur sam­band Harry við föður sinn og bróður verið stirt að undan­förnu.

Page Six ræddi við Tom Bower, höfund bókarinnar Re­ven­ge: Meg­han, Harry and the War Between the Windsors, og segir hann að bókin frá Harry sé í raun ekkert annað en „tifandi tíma­sprengja“.

Bókin hefur verið í smíðum undan­farin misseri en í um­fjöllun Page Six kemur fram að and­lát Elísa­betar Bret­lands­drottningar, ömmu Harrys, hafi sett strik í reikninginn. Hann vilji endur­skrifa á­kveðna kafla í ljósi and­látsins og draga jafn­vel úr gagn­rýni á föður sinn og bróður.

Bower sér þó fyrir sér að Harry muni láta ýmis­legt flakka í bókinni og segir að konungs­fjöl­skyldan sé á nálum vegna bókarinnar.

Upp­haf­lega stóð til að bókin kæmi út í nóvember en út­gáfunni hefur nú þegar verið frestað fram á næsta ár. Bower segir að orðið á götunni sé að bókin komi út í kringum páskana og Harry muni bæta við sér­stökum kafla um út­för ömmu sinnar.

„Þar verður ljósi varpað á það hvernig þau voru snið­gengin þannig að ég held að sá kafli verði að­eins til að hella olíu á eldinn,“ segir Bower en eins og greint var frá fyrir skemmstu þótti Karli Breta­konungi, föður Harry, ekki við­eig­andi að tengda­dóttir hans, Meg­han Mark­le, yrði við­stödd kveðju­stund sem haldin var í Balmor­al-kastala daginn sem Elísa­bet lést.

Harry var mjög ó­sáttur við þetta og neitaði að snæða kvöld­verð með föður sínum og bróður þetta sama kvöld.