Elvis hafði gaman af því að njóta lífsins og gera sér glaðan dag, hann var mikill matmaður og kunni þá lífsins list að gera vel við sig í mat og drykk. Elvis gerði meðal annars rómaða sælkerasamloku með bönunum og hnetusmjöri, sem enn er ómissandi hluti af bandarískri matarhefð. Samlokuna lét kóngurinn útbúa fyrir sig dag sem nótt, enda jafnaðist fátt á við þessa stökku og lostætu samloku sem var rokkgoðinu jafn vel þóknanleg sem orkumikill hádegisverður, sem og heimsins besta snarl þegar hungrið svarf að.

Elvis var mikill kvennaljómi og auðvitað stórkostlegur söngvari. Hér er hann með fulla salatskál af konum í kvikmyndinni Paradise Hawaiian Style.

Þar sem afmælisdag kóngsins ber upp á laugardag er tilvalið að dunda sér við að matbúa þrjá af hans upphaldsréttum og halda svolítið Elvis-afmælisboð í tilefni dagins. Hlusta á tónlist rokkarans mikla og hans óviðjafnanlegu rödd, fá sér banana- og hnetusmjörssamloku í hádegissnarl og bjóða upp á amerískan kjöthleif með sætkartöfluböku a la Elvis Presley, en réttirnir koma úr uppskriftasafni hans og voru gefnar út í matreiðslubókinni Are you hungry tonight? sem kom út árið 1992. Þá er æðislegt að enda kvöldið á sjarmerandi bíómynd úr safni Elvis Presley, klæða sig jafnvel í Hawaii-skyrtu og útbúa bláan kokteil í stíl.

Það er aldeilis líka við hæfi að heiðra minningu Davids Bowie í dag, en þeir Elvis deildu afmælisdegi, og hefði Bowie orðið 75 ára í dag, en á mánudaginn, 10. janúar, eru fimm ár síðan hann kvaddi þennan heim. Bowie var alla tíð mikill aðdáandi rokkkóngsins og er gott til þess að hugsa að þessir miklu tónlistarmenn taki kannski saman lagið í himnaríki í dag.

Djúsí og æðisleg banana- og hnetusmjörssamloka, eins og Elvis elskaði.

Steikt samloka Elvis, með banana og hnetusmjöri

1 lítill og þroskaður banani

2 þykkar franskbrauðssneiðar

3 msk. hnetusmjör

1 msk. smjör

Stappið bananann með gaffli. Blandið bananastöppunni saman við hnetusmjörið og smyrjið á brauðsneiðarnar, eða sneiðið einfaldlega bananann ofan á hnetusmjörið. Bræðið næst smjör á vægum hita á pönnu og brúnið samlokuna á báðum hliðum þar til hún er gullin á lit.

Kjöthleifur með tómatsósu er gómsætur aðalréttur og tilvalinn á laugardagskvöldi, eins og Elvis naut svo oft á borðum í Graceland.

Kjöthleifur með tómatsósu, a la Elvis Presley

1 kg nautahakk

1 laukur, smátt saxaður

1 rauð eða appelsínugul paprika, smátt skorin

2 hvítlauksrif, marin

3 egg

Salt og pipar

1 pk. Ritz-kex, brotið niður

1 dós maukaðir tómatar

Sósa

2 dósir maukaðir tómatar

½ bolli venjuleg tómatsósa

Blandið saman öllu hráefni í kjöthleifinn og setjið í brauðform eða eldfast mót. Bakið í ofni við 180°C í 30-40 mínútur. Þegar hleifurinn er nánast eldaður er sósunni hellt yfir kjötið og allt sett aftur inn í ofn í 10 mínútur.

Sætkartöflubaka Elvis Presley passar einkar vel með kjöthleifnum sem var í dálæti rokkkóngsins.

Sætkartöflubaka rokkkóngsins

2 stórar sætar kartöflur

1 ½ bolli sykur

3 egg

1 tsk. vanilla

1 tsk. múskat

Salt og pipar

220 g smjör

1 pk. frosið smjördeig

Bakið sætu kartöflurnar þar til þær eru mjúkar. Kælið þær, skrælið og stappið saman við annað hráefni. Fletjið út smjördeigið og setjið í bökuform. Setjið næst kartöflufyllinguna ofan á smjördeigið og bakið í forhituðum ofni á 180°C í um 50 mínútur, eða þar til eldað í gegn.