Blár er sá litur í litrófinu sem tengist hvað mest trausti, áreiðanleika, heiðarleika og ábyrgð. Blár litur er sagður hjálpa fólki að takast á við stress, veita ró og auka næði. En það er einmitt þannig sem okkur líður þegar við liggjum og horfum upp í heiðbláan himinn. Blár minnir líka á hreinleika og tandurhreint vatn. Það kemur því fáum á óvart að það er einmitt tískulitur haustsins, en heimsbyggðin hefur sjaldan þurft jafnmikið á því að halda að bera traust til fagaðila varðandi reglur um samkomutakmarkanir, grímunotkun og fleira í kjölfar COVID-19 faraldursins. Því er heldur ekki að neita að blái liturinn tónar vel við fagurbláar sóttvarnagrímur sem eru víst komnar til að vera.

Það er kominn tími til þess að gefa kolsvarta maskaranum smá frí og gera tilraunir með litaðan maskara. Þau sem vilja fara hægt í sakirnar og hryllir við tilhugsuninni um bleik augnhár geta gert tilraunir með dökkbláan eða jafnvel djúpgrænan maskara, sem gefur augunum þá skerpu sem margir sækjast eftir. Þrátt fyrir að falla nokkuð vel inn í hefðbundnar förðunarleiðir þá vekja þessir litir hæfilega athygli til þess að fá fólk til þess að líta á þig aftur.

Portúgalski fatahönnuðurinn Luis Buchinho tók virkan þátt í bláa æðinu í tískuvikunni í Lissabon í mars og sýnir hér dökkbláan kjól sem hluta af haustlínunni.
Geggjaður, rafblár leðurjakki, var ein af sterkustu flíkunum í haust- og vetrarlínu Junko Shimada sem var sýnd á tískuvikunni í París í mars.
Ljósblár, brúnn og svartur anorakkur úr smiðju Lacoste. Þessi er úr haust- og vetrarlínunni sem sýnd var á tískuvikunni í París í mars.
Blár maskari setur punktinn yfir i-ið í fallegri og litsterkri kvöldförðun. Blái liturinn vekur athygli og gefur áhugavert yfirbragð.
Þessir flauelsbláu stólar setja fallegan og nýstárlegan svip á annars einfalt og hvítt eldhús. Mynd/ Getty Images.
Blái liturinn einskorðast ekki við tískupallana heldur má búast við að hann fái að njóta sín inni á heimilunum einnig. Blár litur er tákn um hreinleika og hvergi á það betur við en á baðherberginu.