Nanna lærði leiklist og leikhúsfræði við Rose Bruford College of Theatre and Performance, sem er einn virtasti leiklistarskóli Bretlands, og útskrifaðist árið 2012. Hún hefur leikið í kvikmyndum og á sviði, en frá árinu 2018 hefur hún verið listrænn stjórnandi jaðarlistahátíðarinnar Reykjavík Fringe Festival.

„Ég er kona margra hatta og finnst gaman að hafa mörg járn í eldinum. Undanfarin ár hef ég meðal annars unnið við jöklaleiðsögn samhliða leiklistinni, en þegar kórónuveirufaraldurinn skall á í fyrra stóð ég uppi án lífsviðurværis. Ég ákvað þá að prófa eitthvað nýtt og skráði mig á nokkur námskeið í bókmenntafræði við Háskóla Íslands til að auðga andann og fór jafnframt að vinna á frístundaheimili,“ segir Nanna.

Hún er einnig mikil útivistarmanneskja og náttúrubarn og er nýkomin úr hesta- og kajakferð.

„Ég hef gaman af því að ferðast, bæði hér heima og erlendis. Ég hafði mikla ánægju af því að leiðsegja uppi á jökli því enginn dagur er eins. Jöklarnir taka sífelldum breytingum, jafnvel frá degi til dags, sem gerir þá áhugaverða,“ segir hún og nefnir að margir leikarar sinni verkefnum í ferðaþjónustunni. „Leikarar eiga yfirleitt auðvelt með að tala við fólk og læra texta, þannig að þetta tvennt spilar vel saman.“

RISA-Friction er dans/sirkússýning frá Finnlandi sem verður sýnd í Tjarnarbíói. MYND/AÐSEND

Tók hátíðina í sínar hendur

Nanna hefur búið víða um heim, eða í Argentínu, Brasilíu, Eistlandi, Englandi, Noregi og á Spáni. „Ég er svo mikið fiðrildi að mér finnst gaman að prófa eitthvað nýtt. Það átti sinn þátt í því að ég ákvað að skipuleggja jaðarlistahátíðina Reykjavík Fringe Festival. Það stóð til að halda hátíðina í fyrsta sinn árið 2017 og ég var búin að skrá leiklistaratriði til leiks. Af einhverjum ástæðum var hátíðinni aflýst, mér til mikilla vonbrigða. Ég ákvað þá að taka að mér að halda hana sjálf árið eftir, með þriggja mánaða fyrirvara. Það tókst svo vel til að hátíðin verður nú haldin í fjórða sinn, en ég hef líka verið afskaplega heppin með samstarfsfólk,“ segir Nanna.

The Clown on the Fifth Floor eftir Storm Dunder er tónlistar/leikhúsviðburður frá Svíþjóð, verður sýndur á Bar Ananas. Sýningin vann Grand Prix verðlaun RVK Fringe í fyrra þegar hún var sýnd í streymi. MYND/AÐSEND

Reykjavík Fringe Festival verður sett 3. júlí og mun standa yfir í átta daga. Nanna er að vonum spennt en þetta er ein fyrsta listahátíðin sem haldin verður í Reykjavík í ár, núna eftir að samkomutakmarkanir voru rýmkaðar.

„Undanfarin ár höfum við byrjað að plana hátíðina strax í mars en vegna Covid-19 hefur allur undirbúningur verið með óvenjulegu móti í ár. Við eigum von á listamönnum frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Svíþjóð og Þýskalandi til landsins og það varð að brýna fyrir þeim að kaupa farmiða sem hægt væri að breyta með stuttum fyrirvara,“ segir Nanna.

Samtals verða 70 atriði á hátíðinni, 55 íslensk atriði og 15 erlend. Dagskráin samanstendur meðal annars af uppistandi, leikhúsatriðum, myndlistarsýningum, dansverkum, kabarett og tónlist og miðast við alla aldurshópa. „Við erum með sérstakt prógramm fyrir unga fólkið, svo sem sirkus, uppistand, myndasögusýningu, kennslu í sviðsframkomu og sviðsetningu. Það verður líka hægt að læra töfrabrögð,“ segir hún.

„Við verðum með nokkra viðburði á nýjum stöðum, svo sem Árbæjarsafni og í Elliðaárdalnum en annars verða allir viðburðir í miðbænum og hægt að ganga á milli þeirra. Á Árbæjarsafni verður sýningin Sauðatónar, eða Sheep Music, en Hafdís Bjarnadóttir ásamt hljómsveitinni Passepartout Duo hefur prófað sig áfram með tónlist sem kindur virðast hafa gaman af. Í Elliðaárdalnum verður rúlluskautadiskó og mikið fjör.“

A Solo From the Pit eftir Elias Faingersh er músíkölsk uppistandssýning frá Svíþjóð sem fer fram á Bar Ananas. MYND/AÐSEND

Komin til að vera

Þegar Nanna er spurð hvort jaðarlistahátíðin sé komin til að vera segir hún að svo sé. „Við erum að slíta barnsskónum og ég finn að hátíðin er orðin þekktari nú en áður. Ég þarf ekki lengur að útskýra fyrir fólki um hvað hún snýst. Ég finn líka fyrir meiri áhuga að utan. Margir sem ætla að koma til Íslands í sumar hafa haft samband við okkur og vilja koma á þeim tíma sem hátíðin stendur yfir. Fólk getur þá slegið tvær flugur í einu höggi. Skoðað eldgosið og kíkt svo til okkar,“ segir hún og brosir.

Að þessari hátíð lokinni mun Nanna hefjast handa við að undirbúa kvikmyndahátíð og einnig eru önnur verkefni í farvatninu. „Ég hef komið að undirbúningi RIFF-kvikmyndahátíðarinnar síðustu árin. Ég er líka með minn eigin listahóp, Huldufugl, sem setti upp sýndarveruleikasýninguna Kassann. Hún vakti mikla athygli og vann til fjölda verðlauna og var til dæmis tilnefnd til Grímuverðlaunanna. Við fórum með sýninguna til Bandaríkjanna og Evrópu og á dagskránni var að sýna hana víðar en það fór allt á bið vegna Covid-19. Ég vinn nú að sjálfstæðu framhaldi Kassans, Hliðstætt fólk, sem verður tilbúið síðar í sumar eða haust. Í vetur tek ég þátt í sirkussýningu og er byrjuð að æfa loftfimleika til að vera vel undirbúin. Svo verður Hliðstætt fólk sýnt hjá Þjóðleikhúsinu á næsta leikári,“ segir Nanna Gunnars. ■

Nánari upplysingar má finna á Reykjavík Fringe Festival.