Tveir velskir menn eru í dag bestu vinir eftir að hafa kynnst hvorum öðrum á óvenjulegan hátt. Þeir voru giftir sömu konunni á sama tíma, en hvorugur þeirra vissi að eiginkona þeirra ætti tvo eiginmenn. Ástralski fréttavefurinn News.com.au fjallar um málið.

Peter Sheratt giftist Karen Sheratt árið 2006, en þá höfðu þau verið í sambandi í skamman tíma, í kjölfar þess að hún skildi við fyrsta eiginmann sinn.

Árið 2012 giftist Karen síðan Christopher Thomas, en þá var hún enn gift Peter.

En að lokum komst upp um leyndarmál hennar og hlaut hún dóm fyrir tvíkvæni, að giftast einstaklingi á meðan maður er enn þá giftur öðrum aðila. Hún hlaut fjögurra mánaða dóm.

„Hún var alltaf að ljúga að mér“

Á meðan réttarhöldin stóðu yfir var mönnunum tveimur meinaða að tala við hvorn annan, en eftir að þeim var aflokið ákváðu þeir að hittast og fá sér bjór. Og í dag eru þeir bestu vinir.

„Einhverjum gæti fundist það furðulegt hvað við náum vel saman,“ er haft eftir Peter sem bætir við „Það sem við eigum sameiginlegt er fyrrverandi eiginkona. Við deildum reynslu þar að auki sem sá til þess hversu sterk vinátta okkar er. Hún hafði stjórn á okkur báðum og vinátta okkar byggir á því,“

Peter lýsir sambandinu við Karen, sem hann segir að hafi einkennst af lygum hennar. „Hún var alltaf að ljúga að mér um það hvar hún var og hvað hún var að gera,“

Hann segir sameiginlegan bankareikning þeirra til að mynda alltaf hafa verið tómann, sem hafi orðið til þess að hann átti við mikil fjárhagsvandræði að stríða. Á endanum yfirgaf hann Karen, en þau bjuggu saman í Swansea.

„Það var á því augnabliki sem ég áttaði mig á því að samband okkar byggði á lygi,“

Árið 2012 kynntist hún Christopher og eftir einungis nokkurra mánaða samband  giftust þau á Holiday Inn-hóteli.

Christopher segir að hann hafi áttað sig á því að Karen hefði eitthvað að fela, en blindaður af ást hafi hann verið tilbúinn að ganga í það heilaga.

Einungis ári eftir brúðkaupið rakst hann á skilnaðarpappíra frá Peter. Það varð til þess að hann ákvað einnig að yfirgefa hana. „Það var á því augnabliki sem ég áttaði mig á því að samband okkar byggði á lygi,“

Auk þess komst hann að því að Karen hafði sett upp prófíl á stefnumótasíðu. Hann ákvað því að hafa samband við Peter og tilkynna lögreglu um málið.

Líkt og áður segir hlaut Karen dóm fyrir tvíkvæni, en við dómsuppkvaðningu sagði dómarinn að hún væri bæði „undirförul og óheiðarleg“.

„Tvíkvæni er alvarlegt brot sem brýtur á bága við hjónabandið,“ sagði dómarinn og bætti við „Þú grést á meðan réttarhöldin stóðu yfir, en ég efast verulega um að þú iðrist gjörða þinna,“