Guðmundur Heiðar Helgason og Tinna Sigrún Pétursdóttir komu vinum og fjölskyldu rækilega á óvart þegar þau gengu í hjónaband í miðri þrítugsafmælisveislu Tinnu þann 1. maí síðastliðinn. Örfáir vissu af giftingunni og náðu þau viðbrögðum allra á myndband. Guðmundur og Tinna hafa verið trúlofuð í fjögur ár og ákváðu þau að láta slag standa og gifta sig og í miðri veislunni brá Tinna sér frá og kom fram í hvítum kjól.

Nýgiftu hjónin segja allt hafa gengið eins og í sögu en á síðustu stundu, um 90 mínútum áður en veislan átti að hefjast, áttuðu hjónin sig á því að þau hefðu gleymt brúðarvendinum og tók þá brúðurin upp á því að skokka út í búð með vinkonu sinni.

„Ég tók saman einhver falleg blóm og greinar og fékk bara virkilega fallegan brúðarvönd út út því. Konan í afgreiðslunni sagði okkur að þetta væri búið að gerast nokkuð oft upp á síðkastið að einhver komi inn og segi „mig vantar brúðarvönd NÚNA og helst í gær“ Það tók nokkrar mínútur að fá vöndinn og við svitnuðum á meðan við það að passa að grímurnar eyðileggðu ekki make upp-ið okkar. En ég fékk þennan fullkomna vönd að mínu mati og hefði ekki viljað sleppa honum,“ segir Tinna.

„Þetta small allt saman í lokin, allt stress var algjör óþarfi þó að ég hafi verið að fríka út þarna á tímabili“ Þá hafi nokkrir lýst yfir vonbrigðum að hafa ekki getað komið með gjafir handa hjónunum eða klætt sig betur upp en að sjálfsögðu voru allir gestir glaðir að geta fagnað þessum degi með Tinnu og Guðmundi.

Guðmundur, Tinna og dóttir þeirra Sunneva.
Mynd/Aðsend

Pabbinn bókaði ferð norður

Aðspurð segja hjónin það sannarlega hafa verið snúið að halda þessu leyndu.

„Manni langaði auðvitað að segja fólki. Þetta var snúið þegar fólk var að afboða sig og þá þurftum við að beita ýmsum brögðum. Við hringdum til að mynda í yfirmann bróður Tinnu og sögðu honum frá brúðkaupinu svo hann fengi alveg pottþétt frí úr vinnunni,“ segir Guðmundur og tekur Tinna undir með honum.

„Það var mjög erfitt að halda þessu frá fólki. Ég sagði bestu vinkonu minni frá þessu og hún hjálpaði mér í kjólavali og öðru sem Gummi var kannski ekki mesta hjálpin í. Það var líka smá stress að fólk kæmi ekki. Á einum tímapunkti hélt ég að pabbi væri búinn að bóka ferð norður þegar við vorum nýbúin að kaupa hringana og láta skrifa inn í þá. Ég hálf skammaði hann og fékk til baka: „Ég er að koma í afmælið þitt! JA HÉRNA.““

Náðu viðbrögðunum á myndband: „Það var skemmtilegast var að sjá svipina á öllum þegar þau áttuðu sig á hvað væri að gerast.“
Mynd/Skjáskot

Skemmtilegast að sjá viðbrögðin

Það kom Tinnu mest á óvart að engan hafi grunað neitt miðað við hvernig hún hagaði sér. Sömuleiðis varð Guðmundur stressaður þegar félagi þeirra, sem bauðst til að mynda viðburðinn, mætti með rosalegar græjur sem hefðu mögulega vakið grunsemdir viðstaddra. Var þá tekið til þess ráðs að fela myndavélarnar og þrífótinn inni í svefnherbergi og taka fram græjurnar alveg á síðustu stundu.

Sigurður Rúnarsson, athafnastjóri frá Siðmennt, þurfti að bregða sér í hlutverk tónlistarmanns áður en athöfnin hófst. Svo tók hann sér stöðu í íbúðinni, lagði gítarinn frá sér og tók upp bókina sína og hóf að þylja upp inngangsorðin.

„Það var alveg magnað að sjá viðbrögðin, fólk fór að hlæja og gráta,“ segir Guðmundur og bætir Tinna við: „Já, það var skemmtilegast var að sjá svipina á öllum þegar þau áttuðu sig á hvað væri að gerast. Ég á smá erfitt með að vera miðpunktur athyglinnar en það var gaman að koma öllum á óvart, sum viðbrögðin voru alveg frábær!“

Hér fyrir neðan má sjá myndband af viðbrögðum gesta. Myndatökumaður er Viktor A. Bogdanski.

Tinna segir mörg augnablik standa uppúr, þá sérstaklega þegar hún þurfti að lauma sér inn í herbergi til að fara í kjólinn.

„Ahafnastjórinn var að mæta, Gummi að segja mér að hoppa inn, bróðir minn að labba inn um dyrnar og allt í kaosi. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að lauma mér inn í herbergi án þess að vera grunsamleg þannig að vinkona mín kom með flotta lausn og spurði nokkuð hátt hvort ég ætti auka sokkabuxur handa henni,“ segir Tinna og hlær. Eftir veisluna sátu svo nýgiftu hjónin í algjöru spennufalli og skáluðu fyrir hvort öðru.

Nýgift hjónin eftir vel heppnað og óvænt brúðkaup.
Mynd/Aðsend