Olivia Newton-John og John Travolta glöddu margan Grease-aðdáandann í gær þegar þau mættu klædd sem hinir sívinsælu karakterar úr myndinni Sandy Olsson og Danny Zuko. Þetta er í fyrsta skipti sem þau klæða sig upp í gervunum síðan myndin kom út fyrir 41 ári síðan.

Tilefnið var sérstakur viðburður þar sem aðdáendum myndarinnar var boðið að koma og hitta leikarana og taka þátt í fjöldasöng á hinum vinsælu lögum hennar í Flórída-fylki í Bandaríkjunum.

Olivia, sem er orðin 71 árs, deildi mynd af sér og Travolta, þar sem þau ganga hönd í hönd uppklædd sem Sandy og Danny á leið á viðburðinn. „Fyrsta skiptið okkar í búningunum síðan myndin var gerð! Ég er svo spennt!!“ sagði hún í færslu við myndina.

Þau Olivia og Travolta eru góðir vinir og hafa oft leikið saman síðan að Grease kom út árið 1978. Árið 2012 gáfu þei saman út plötu með jólalögum sem bar titilinn This Christmas.

Að loknum fjöldasöngnum í gær sátu leikararnir svo fyrir svörum, sem persónurnar, þar sem aðdáendur gátu spurt þau um allt milli himins og jarðar.