Bjarki Guðnason, ungur maður með þroskahömlun, og stuðningsforeldri hans Sigurður Sólmundarson hafa lagt leið sína til Ítalíu en komast ekki á aðalkeppnina í Eurovision eins og þeir ætluðu sér.

Móðir Bjarka greiddi 2.500 evrur fyrir tvo miða á aðalkeppnina frá fyrirtæki sem heitir Viagogo en fékk póst í morgun um ekki væri hægt að afgreiða pöntunia.

„Hún fær þetta sennilega endurgreitt en það er ömurlegt sárabót,“ segir Sigurður í samtali við Fréttablaðið.

Bjarki og Sigurður.

Uppselt er á aðalkeppnina og því nær ómögulegt að finna miða. Bjarki og Sigurður eru nú staddir um 50 kílómetrum frá Tórínó og ætla þrátt fyrir leiðindin að mæta í borgia á morgun. Aðspurðir segjast þeir ætla að gera besta úr ferðinni og mögulega koma sér fyrir á útisvæðinu í Júróþorpinu í Tórínó þar sem hægt verður að fylgjast með keppninni á stóra skjánum.

Bjarki er mikill Eurovision aðdáandi og hefur lengi dreymt um að mæta á sjálfa keppnina. Þetta eru því mikil vonbrigði.

Þeir Bjarki og Sigurður eru ekki einu Íslendingarnir sem hafa lagt leið sína til Tórínó án þess að hafa tryggt sér miða á aðalkeppnina.

Páll Frímann Árnason, Eva Jakobsdóttir og Katla Ásgeirsdóttir hafa ferðast alla leið til Ítalíu til að fylgjast með Eurovision-keppninni en eru þó ekki með miða á sjálft úrslitakvöldið sem fer fram á laugardaginn. Þau segja það engu máli skipta þegar kemur að „júróstemningunni“.