„Við vorum búnir að hafa þessa hugmynd í kollinum lengi,“ segir Alexander, sem hefur dreymt um að opna kaffihús í mörg ár. Þeir Davíð, sem þá bjó í Danmörku, höfðu átt svipaða drauma og þegar Alexander, sem býr sjálfur í Urriðaholti, sá húsnæðið hringdi hann langlínusímtal og sagði við Davíð að þetta væri staðurinn.

„Við vissum í raun ekkert við hverju við máttum búast,“ segir Davíð. Hann var eingöngu búinn að sjá myndir af húsnæðinu og játar hann að hafa verið örlítið hikandi í byrjun.

„Maður var í raun með djöful á vinstri öxlinni sem sagði nei, en engil á þeirri hægri sem sagði, af hverju ekki? Ef ekki núna, þá hvenær? Svo við létum slag standa og sjáum svo sannarlega ekki eftir því,“ segir hann glaður yfir viðtökunum.

Þakklátur ástinni

Una Mjöll Ásmundsdóttir arkitekt og kærasta Davíðs hannaði staðinn. „Hún lagði gífurlega vinnu í allar pælingar og hefur gott auga fyrir þessu,“ segir Davíð, stoltur af sinni konu.

„Hún er alltaf að ögra okkur aðeins og segja að við þurfum að bæta við fleiri plöntum eða annað sem við tökum hreinlega ekki eftir. Við værum líklega bara með kaffivél og pallettur ef við værum bara tveir félagarnir í þessu,“ segir hann og þakkar fyrir ástina.

„Við erum með alls kyns pælingar á lofti og viljum skapa góða hverfisstemningu með skemmtilegum viðburðum. Það er pæling að hafa fastakúnnakvöld, konukvöld og almenn stemningskvöld því okkur hefur verið tekið mjög vel og við erum farnir að þekkja marga viðskiptavini með nafni,“ segir Alexander og grípur Davíð orðið, að það sé einmitt það sem þeir vilja.

„Við værum líklega bara með kaffivél og pallettur ef við værum bara tveir félagarnir í þessu.“
Fréttablaðið/Eyþór

Mætast á miðri leið

Að sögn félaganna mætast þeir á miðri leið. Alexander er kaffimegin í rekstrinum og Davíð leggur meiri áherslu á vín- og kokteilapælingar.

„Með þessu jafnvægi náum við til breiðari hóps en stærstur hluti þeirra sem koma reglulega til okkar er yngra fólk sem fyllir oft staðinn á kvöldin, sem við erum ótrúlega þakklátir fyrir,“ segir Alexander.

„Foreldrar geta komið og notið þess að fá sér góðan kaffibolla eftir að hafa sótt barnið í skólann eða leikskólann sem er hérna hinum megin við götuna, eða fengið sér einn bjór á krana eftir vinnu,“ segja þeir sammæltir.

Hrátt en huggulegt

„Hverfið er vistvottað og við erum einnig að leggja okkar af mörkum með því að endurnýta hluti og gera margt sjálfir. Sem dæmi eru stólarnir gamlir úr Borgarholtsskóla, sem við tókum efnið af og koma afar vel út,“ segir Davíð.

Á döfinni hjá þeim drengjum er að koma með jólin til íbúa Urriðaholts og blanda jólaglögg og bjóða upp á risalamand, sem eru jól í hverjum bita eins og allir vita. „Við erum í beinni samkeppni við IKEA með jólaglöggið,“ segir Alexander á léttum nótum.

Gamlir félagar úr Hafnarfirði
Fréttablaðið/Eyþór
Dýrindis ostabakki er vinsæll kostur meðal gesta.
Fréttablaðið/Eyþór

Hægt er að fylgjast með þeim félögum og komandi viðburðum á Instagram reikning staðarins: daeinn210 og daeinn.is.