Hljóm­sveitin Hatari er mætt til Ísrael og hefur það vakið at­hygli þar­lendis en ísraelski miðillinn Jeru­salem Post hefur meðal annars greint frá veru þeirra í landinu. Hljóm­sveitar­með­limirnir eru að taka upp hið svo­kallaða póst­kort eða kynningar­mynd­bandið sitt fyrir keppnina í maí en þetta stað­festir Felix Bergs­son, farar­stjóri ís­lenska Euro­vision hópsins í sam­tali við Frétta­blaðið. Póstkortið birtist eins og flestir vita áður en keppendur stíga á svið í keppninni.

„Þeir eru að vinna að póst­kortinu í dag. Þannig Jeru­salem Post er með þetta alveg rétt,“ segir Felix léttur í bragði. Að­spurður hvort gengið hafi vel í dag stað­festir Felix það en vill, eðli­lega, ekki gefa mikið upp.

„Jú þetta hefur gengið mjög vel og lítur mjög vel út svo þetta er spennandi. Það er heil­mikil spenna í hópnum og þeir eru að gera mjög vel í þessu póst­korti svo við erum ægi­lega spennt að sjá þetta,“ segir Felix. Sveitin stoppar stutt við en næst á dag­skrá eru Euro­vision við­burðir í London og Madríd en sveitin mun stíga á svið í síðari borginni.

„Muni stíga á svið í maí hafi þeim ekki verið vísað úr keppni“

Í frétt Jeru­salem Post er farið yfir for­sögu sveitarinnar og nefnt að sveitin sé um­deild vegna gagn­rýni sinnar á Ísraels­ríki. Þar segir jafn­framt að sveitin ætli sér að nýta dag­skrár­vald sitt í Euro­vision til þess að gagn­rýna Ísrael og að þeir hafi sagt að ríkið hafi framið mann­réttinda­brot en þar vísað í við­tal Stundarinnar við með­limi sveitarinnar.

Þá segir í fréttinni að með­limir sveitarinnar hafi ekki miklar á­hyggjur af því að Ís­land verði dæmt úr keppni. „Búist er við því að þeir muni koma fram í síðari undan­úr­slitunum þann 16. maí, ef þeir hafa ekki verið dæmdir úr leik þá,“ segir orð­rétt í fréttinni. Ís­land kemur fram í fyrri undan­úr­slitum þann 14. maí.

At­hygli vakti í síðasta mánuði þegar ísraelsku sam­tökin Shurat HaDin lýstu því yfir að þau vildu koma í veg fyrir komu sveitarinnar til Ísrael vegna stuðnings sveitarinnar við snið­göngu á Ísrael. Sam­tökin sendu í því skyni erindi til ísraelska innan­ríkis­ráðu­neytisins en ljóst er að þau hafa að minnsta kosti enn sem komið er ekki haft erindi sem erfiði.

Það er Kan, ísraelska ríkissjónvarpið, sem sér um gerð póst­kortanna en fatahönnuðurinn Mor Bell aðstoðaði við tökur. Hún deildi mynd­böndum frá gerð póst­kortsins með Hatara á Insta­gram síðunni sinni en myndirnar má sjá hér að neðan. Fötin sem Hatari og dansararnir eru í voru hönnuð af Andra Hrafni Unnarssyni og Karen Briem.

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot