Breski sjón­varps­maðurinn Pi­ers Morgan kom her­toga­hjónunum Harry og Meg­han ó­vænt til varnar í sjón­varps­þættinum sínum á ITV sjón­varp­stöðinni. Pi­ers segist hafa verið of harður við hjónin undan­farin ár.

Var sjón­varps­maðurinn að ræða mál Andrésar Breta­prinsar við gesti sína. Pi­ers þurfti að segja skilið við sjón­varps­þáttinn Good Morning Britain eftir harð­orð um­mæli sín í garð hjónanna eftir við­tal Opruh Win­frey við hjónin í fyrra.

Pi­ers segir þó að hegðun hjónanna blikni í saman­burði við hegðun prinsins. Andrés hefur eins og fram hefur komið fallist á sátta­greiðslur til Virginiu Guiffre sem sakað hefur prinsinn um að hafa mis­notað sig kyn­ferðis­lega á barns­aldri í partýi hjá milljarða­mæringnum Jef­frey Ep­stein.

Þrátt fyrir þetta er prinsinn upp­á­halds­sonur Elísa­betar Bret­lands­drottningar sem haldið hefur fast í son sinn. Hann fylgdi henni meðal annars inn í kirkju í sér­stakri minningar­at­höfn um Filippus prins.

„Til þess að taka dæmi held ég að við séum of hörð við Harry og Meg­han. Það er oft rétt­lætan­legt en það sem þau hafa gert, það hrein­lega bliknar í saman­burði við það að fjöl­skyldu­með­limur borgi milljónir til þess að láta mis­notkunar­mál hverfa.“