Owen Fiene er frá Chicago í Bandaríkjunum en býr nú með eiginkonu sinni, Köru Hergils, og dóttur þeirra Margréti í Vesturbænum. Hans helsta ástríða er ljósmyndun.

„Ég kom hingað fyrst í júní árið 2012 ásamt tveimur góðum vinum mínum. Ástæðan fyrir því að við völdum Ísland af öllum stöðum var einfaldlega sú að okkur langaði að upplifa eitthvað sem væri okkur framandi án þess að þurfa að ferðast of langt. Eftir að hingað var komið keyrðum við út á land til að sjá þetta einstaka landslag sem hér er. Sem ljósmyndari var ég mjög spenntur fyrir því, ég var handviss um að ég myndi ná góðum myndum hérlendis,“ segir hann.

Owen hefur tekið saman uppáhaldsmyndir sínra sem hann hefur tekið síðasta áratuginn. Mynd/Owen Fiene

Ást við fyrstu sýn

Eftir að hafa keyrt um landið var förinni aftur heitið í bæinn.

„Við keyrðum aftur í bæinn og ákváðum að kíkja út á lífið. Fyrsti barinn sem við sáum var Prikið og einhverra furðulegra hluta vegna byrjaði allt að fyllast í kringum klukkan 21.00 en það var bara mánudagur. Við vorum nokkuð hissa á þessu, hvað gæti eiginlega verið í gangi? Eftir stutta stund inni á staðnum hitti ég konu sem spurði mig hver ég væri. Það var ást við fyrstu sýn og sex mánuðum seinna vorum við gift,“ segir hann og brosir.

Það er því nokkuð falleg tilviljun að Owen hafi endað á Prikinu þennan dag, en á þeim tíma var hópur fólks sem hittist þar á mánudögum og dansaði af miklum móð við klisjulega danstónlist og kallaði sig Mánudagsklúbbinn. Eiginkona Owens, Kara Hergils, er dansari að mennt en hefur starfað undanfarin ár sem leikstjóri, leikritaskáld og sem verkefnastjóri hjá Listahátíð Reykjavíkur.

Nýverið fór Owen að selja prent af myndum sínum í viðleitni til að mæta breyttum aðstæðum á markaðinum. Mynd/Owen Fiene

Frábært land fyrir listafólk

Owen hefur lagt sig fram við að læra tungumálið.

„Ég er orðinn nokkuð góður þótt ég segi sjálfur frá, en auðvitað er það sífellt í vinnslu, maður er alltaf að læra. Dóttir okkar fæddist árið 2014 og við njótum foreldralífsins í Vesturbænum. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að skapa sér líf hér en ég elska landið og að búa hér. Hér er til dæmis ótrúlega auðvelt að kynnast öðrum í listageiranum og fá rými til að vera skapandi. Þetta er mjög ólíkt því sem gerist annars staðar, hér getur maður kynnst fólki úr öllum kimum samfélagsins án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því.“

Owen kom fyrst til landsins í heimsókn með vinum sínum fyrir átta árum. Mynd/Owen Fiene

Hann segir það einstakt við Reykjavík að búi maður yfir einhverri sérþekkingu, þá hafi hún virði í auga einhvers, það sé alltaf einhver sem er til í að koma auga á hæfni manns.

„Ég hef starfað við ýmislegt og reynt að finna hvað hentar mér best. Það var ekki fyrr en ég áttaði mig almennilega á að það er ljósmyndunin sem er mín hæfni og sú þekking sem ég hef upp á að bjóða. Ég ákvað að láta á það reyna og stofna mitt eigið fyrirtæki. Það er samt alveg ljóst að þetta hefði aldrei gengið upp án stuðnings eiginkonu minnar. Íslendingar hafa svo einstaka og magnaða trú á sjálfum sér, það er vandfundið. Ætli að ég hafi bara hreinlega ekki smitast af því,“ segi hann og hlær.

Ljósmyndarinn segir reynslu sína góða af íslenska listasamfélaginu, auðvelt sé að kynnast öðrum innan þess. Mynd/Owen Fiene

Kynntist sjálfum sér

Hann segir að með myndavélina að vopni hafi hann akkúrat fundið það sem hann vill gera í lífinu.

„Ég fæ að fara á alls konar viðburði og tek myndir af mögnuðu fólki og fæ að deila með þeim stundum sem lifa að eilífu í formi ljósmyndar. Mér líður eins og ég sé að upplifa drauminn, í það minnsta minn draum. Ég viðurkenni að staðan í heiminum í dag vegna COVID-19 faraldursins hefur haft mikil áhrif á mitt starf líkt og svo margra annarra. Þess vegna fór ég út í það að gera prent fyrir fólk núna fyrir stuttu. Það er áhugavert hvernig fólk í skapandi störfum hefur tekist á við breytingarnar og reynt að finna aðrar lausnir. Nýverið fór ég svo að vinna að ljósmyndaverki þar sem ég fer yfir síðasta áratuginn í mínu lífi, sem var áratugurinn þar sem ég í raun kynntist sjálfum mér fyrir alvöru.“

Hægt er að skoða verkin hans Owens á kingoden.com.

Owen hlakkaði til að fá að taka myndir af íslensku landslagi. Mynd/Owen Fiene