Paul Lukas Smelt fékk fjögurra milljóna króna styrk frá Aski – mannvirkjarannsóknasjóði fyrir verkefni sem snýst um að byggja fyrsta hampsteypuhús á Íslandi, sem mun rísa í Bolungarvík. Styrkurinn var veittur í mars síðastliðnum, en mannvirkjarannsóknasjóðurinn Askur er fjármagnaður af innviðaráðuneytinu og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu en umsýsla hans er í höndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

„Það er búið að vera að gera hampsteypuhús í um 30 ár í Evrópu og ég kynntist þessu erlendis. Ég hef átt mér þann draum að byggja hús úr hampsteypu í langan tíma og lét loks til skarar skríða í fyrra og hafði samband við arkitekta og Eflu og fór að athuga hvort þetta væri möguleiki,“ segir Paul Lukas Smelt, verkefnastjóri hjá Hampfirma ehf. „Við ákváðum að fara í samstarfsverkefni sem snýr að því að rannsaka hampsteypu í íslenskri veðráttu.

Efla var byrjað að rannsaka áhrif frosts á hampsteypu og voru niðurstöður áhugaverðar. Innan arkitektastofunnar Marimo starfar svo Anna Leoniak, en hún þekkti fyrir þessa byggingartækni og hefur verið til ráðgjafar fyrir hús sem í er notuð hampsteypa í Póllandi, svo þetta samstarf small vel saman,“ segir Paul. „Þau og arkitektinn Bjarni Kristinsson hjá Marimo arkítektum hafa svo unnið hart með mér að þessu. Við ákváðum að gera tilraunir með að búa til hampsteypuveggi fyrir íslensk skilyrði. Í kringum þetta bjó ég og bróðir minn, Hermann Andri Smelt pípari, til félagið Hampfirma ehf.“

Hampspænir, kalksteinn og vatn

„Hampsteypa er búin til úr iðnaðarhampi, en það er ekki sama hvernig plantan er. Flestir hampframleiðendur eru að reyna að komast á lyfjamarkað og fá olíu úr blóminu, svo þar er einblínt á ræktun stórra blóma, og þó stilkarnir séu stuttir er það látið liggja milli hluta,“ segir Paul. „En fyrir hampsteypu höfum við ekkert að gera með blómin. Við þurfum sterkan stilk, en innan í honum er tréni sem er spænt niður og svo límt saman með kalksteini. Þriðja efnið er bara vatn, við uppgufun á því og bindingu kolefna verður steypan grjóthörð en er þrátt fyrir það mjög efnislétt.“

Íslenskar aðstæður til vandræða

„Í næsta mánuði byrja ég að gera grunninn fyrir fyrsta tilraunahúsið og íbúðarhús sem stendur til að byggja þegar við höfum fengið niðurstöður úr tilraununum,“ segir Paul. „Tímaramminn til að þjappa hampsteypu í vegg er voða tæpur því þetta er viðkvæmt efni sem þolir ekki mikið slagviðri fyrstu tvo mánuðina, en hér á landi þurfum við að eiga við lárétt veðurfar. Þannig að við höfum verið að velta fyrir okkur nýjum leiðum til að búa til þetta tilraunahús og það eru margir möguleikar í boði.“

Margir kostir en verður seint ráðandi byggingarefni

„Það er í raun ekki sanngjarnt að bera hampsteypu saman við steinsteypu. Járnbundin steinsteypa er frábært byggingarefni með mjög mikið burðarþol en hampsteypa ein og sér er ekki berandi. Hún er oftast sett utan um timburgrind og er frekar talin til einangrunarefna,“ segir Paul. „ Það sem hún hefur fram yfir steinsteypu er að hún einangrar mjög vel og getur komið í staðinn fyrir ýmislegt aukalegt, eins og steinull, gifs og annað.

Venjulega þarf að loka húsum alveg fyrir veðráttu, en hampsteypan er gufugegndræp, þannig að í stað þess að loka öllu leyfum við raka að flytja sig gegnum vegginn. Hampsteypa er líka gríðarlega basísk, svo að það myndast engin mygla og meindýr þrífast ekki,“ segir Paul. „Hampsteypa hægir líka ekki bara á flutningi varma, heldur geyma hamptrefjarnar í veggnum varma inni í sér. Hampsteypa brennur heldur ekki og hleypir ekki frá sér eiturgufum í miklum hita.

Ég sé fyrir mér að þetta verði sérvara sem sumir kjósa. Við stefnum á að rannsaka þetta efni í þaula, smíða ýmsar útfærslur á uppbyggingu veggja, bæði staðsteypta og einingar, svo þetta er ekki endilega að fara að minnka byggingarkostnað svona fyrst um sinn. Þetta er kostur fyrir þá sem vilja byggja heilbrigð hús sem mygla ekki og eru kolefnisneikvæð og þetta hentar meðal annars astmasjúklingum og ofnæmispésum,“ segir Paul. „Víða er fólk að berjast við að koma út á núlli þegar kemur að kolefnisspori en svona hús hafa verið kolefnisneikvæð erlendis. Við munum gera vistferilsgreiningar hér á landi og koma þeim upplýsingum til skila.“