Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntadrottning og einn þekktasti sérfræðingur landsins í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar segir ljóst að Harry Bretaprins sé haldin sjúklegu hatri á fjölmiðlum. Hún segir leiðinlegt hvernig um sé komið fyrir honum í dag, hann hafi eitt sinn verið svo skemmtilegur.
„Ég stend með Díönu. Ég er ekki mikill aðdáandi Kamillu og Karls,“ segir Kolbrún sem var gestur Crownvarpsins, viðhafnarhlaðvarps Fréttablaðsins um The Crown og bresku konungsfjölskylduna. Hún segir spurð leiðinlegt hvernig komið sé fyrir Harry.
„Þetta er mjög einkennilegt því hann var svo skemmtilegur. Hann var æringi, hann var hrekkjóttur og gerði allskonar hluti. Hann klæddi sig í nasistabúninginn og maður andvarpaði en fyrirgaf honum þv´ihann var svo skemmtilegur.“
Þá rifja þáttastjórnendur það upp að í bók sinni Spare vilji Harry ekkert kannast við þá ímynd sem Kolbrún á við og dregin hafi verið upp af honum í breskum miðlum. „Erkiskúrkur þessarar sögu eru allir fjölmiðlar. Punktur. Hann bara hatar þá,“ segir Þórarinn Þórarinsson annar stjórnanda þáttarins.
Segir Kolbrún Harry ekki gera nein skil á milli venjulegra fjölmiðla, papparassa og annarra miðla. „Þetta er sjúklegt hatur á fjölmiðlum. Það er algjörlega glórulaust.“
Hún segir að Harry segi þó líklega rétt frá þegar hann segir að sinni ímynd hafi verið fórnað fyrir vinsældir Kamillu, eiginkonu Karls konungs. „Það var farið í herferð fyrir Kamillu. Allt þetta fólk er með ímyndarsérfræðinga og það var gerð nokkurra ára áætlun um það hvernig ætti að fá þjóðina til að samþykkja Kamillu.“
Crownvarpið má hlusta á á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins og einnig hér að neðan: