Kol­brún Bergþórsdóttir, bókmenntadrottning og einn þekktasti sérfræðingur landsins í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar segir ljóst að Harry Breta­prins sé haldin sjúk­legu hatri á fjöl­miðlum. Hún segir leiðin­legt hvernig um sé komið fyrir honum í dag, hann hafi eitt sinn verið svo skemmti­legur.

„Ég stend með Díönu. Ég er ekki mikill að­dáandi Kamillu og Karls,“ segir Kol­brún sem var gestur Crown­varpsins, við­hafnar­hlað­varps Frétta­blaðsins um The Crown og bresku konungs­fjöl­skylduna. Hún segir spurð leiðin­legt hvernig komið sé fyrir Harry.

„Þetta er mjög ein­kenni­legt því hann var svo skemmti­legur. Hann var æringi, hann var hrekkj­óttur og gerði alls­konar hluti. Hann klæddi sig í nas­ista­búninginn og maður and­varpaði en fyrir­gaf honum þv´i­hann var svo skemmti­legur.“

Þá rifja þátta­stjórn­endur það upp að í bók sinni Spare vilji Harry ekkert kannast við þá í­mynd sem Kol­brún á við og dregin hafi verið upp af honum í breskum miðlum. „Erki­skúrkur þessarar sögu eru allir fjöl­miðlar. Punktur. Hann bara hatar þá,“ segir Þórarinn Þórarins­son annar stjórnanda þáttarins.

Segir Kol­brún Harry ekki gera nein skil á milli venju­legra fjöl­miðla, papparassa og annarra miðla. „Þetta er sjúk­legt hatur á fjöl­miðlum. Það er al­gjör­lega glóru­laust.“

Hún segir að Harry segi þó lík­lega rétt frá þegar hann segir að sinni í­mynd hafi verið fórnað fyrir vin­sældir Kamillu, eigin­konu Karls konungs. „Það var farið í her­ferð fyrir Kamillu. Allt þetta fólk er með í­myndar­sér­fræðinga og það var gerð nokkurra ára á­ætlun um það hvernig ætti að fá þjóðina til að sam­þykkja Kamillu.“

Crownvarpið má hlusta á á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins og einnig hér að neðan: