Kolbrún Bergþórsdóttir, bókmenntadrottning og einn þekktasti sérfræðingur landsins í málefnum bresku konungsfjölskyldunnar segir að tvær ástæður séu fyrir því að Harry Bretaprins skjóti í allar áttir í nýútkominni sjálfsævisögu sinni Spare.
„Ég hef fylgst með aðdraganda þessarar bókar og hef haft nægan tíma til að fylgjast með breskum fjölmiðlum sem hafa gert þessu máli mjög góð skil, allt frá því að Harry skrifaði undir samninginn og fékk fúlgur fyrir,“ segir Kolbrún sem var gestur Crownvarpsins, viðhafnarhlaðvarps Fréttablaðsins um The Crown og bresku konungsfjölskylduna.
Kolbrún segir að Harry hafi fengið fyrstu drög bókarinnar til baka frá útgefanda, því það hafi verið of mikið um sálfræðilegar pælingar. „Og honum var sagt að gera þetta krassandi, sem hann hefur greinilega farið eftir.“
Hún rifjar upp að foreldrar hans þau Karl og Díana hafi bæðið lagt ævisagnariturum lið. „Andrew Morton skrifaði bók móður hans, hún talaði inn á segulbönd og ræddi sína sögu. Karl lagði sínum ritara einnig lið og kvartaði undan kulda foreldra sinna og að hann hefði verið lagður í einelti í heimavistarskóla,“ segir Kolbrún.
„Þannig að það eru fordæmi en það sem gerist þarna er að Harry skýtur í allar áttir. Hann vegur ósmekklega að fólki og vitnar í einkasamtöl og ég held það séu tvær skýringar á þessu. Önnur er náttúrulega bara peningar. Þau þurfa að halda uppi sínum dýra lífsstíl. Þau búa þarna í einhverri höll með tólf baðherbergi. Þau eru tvö og með tvö lítil börn, til hvers eru tólf baðherbergi?“ spyr Kolbrún.
„Hin skýringin er sú að ég held að Harry hafi einfaldlega farið í of marga sálfræðitíma. Hann er orðinn mjög amerískur á meðan ég stend með Bretunum og konungsfjölskyldunni í þessu, never complain, never explain.“
Crownvarpið má hlusta á á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins og einnig hér að neðan: