Kolbeinn Tumi Daðason fréttastjóri Vísis sver af sér allar sögusagnir að hann sé karlmaðurinn sem vann milljarð í Víkingalottó í sumar. Kolbeinn birti færslu á Facebook í gær þar sem hann segir frá þeim fjölda fyrirspurna sem hann og Selma Björnsdóttir, kærasta hans hafa fengið frá því í sumar um umræddan miljarð.

„Brandari, sem mér þótti frekar augljós í sumar, hefur leitt til þess að fyrirspurnum fer sífjölgandi og við Selma eða vinir mínir fáum spurninguna: Vann Tumi milljarð í lottóinu?

Þetta hefur leitt til margra hlátraskalla þegar ég deili þessum fyrirspurnum með vinnufélögum og vinum, en nú er þetta eiginlega komið gott,“ segir Kolbeinn Tumi.

Ég spila ekki lottó

„Í þessum samræðum hef ég nefnilega deilt því með fólki, eins fáránlega og það hljómar kannski í eyrum einhverra, að ég myndi ekki vilja vinna milljarð. Ég hef aldrei spilað í lottóinu og tölfræðin segir okkur að það fer illa fyrir þeim sem vinna risastóran vinning. Og núna er ég örlítið farinn að finna fyrir neikvæðum áhrifum þess (ekkert alvarlegt samt), að eiga að hafa unnið milljarð, svo ég kannski svara þessu í eitt skipti fyrir öll.

Nei, ég vann ekki milljarð í lottóinu. Ég hef líklega ekki unnið neinn vinning síðan ég var unglingur og nældi mér í einstaka þúsund kall á Lengjunni. Kom þó vafalítið út í smá mínus á því tipptímabili. Ég nýt þess þó að hafa unnið í lífslottóinu að mörgu leyti og er afar þakklátur fyrir það.“

Hann segir gamla Facebook statusa hafi komið honum í klandur í sumar, þar sem frásagnir og slúður hafi byrjað og hlaðist upp.

„Einhvern veginn þótti mér þetta samt svo gjörsamlega augljós brandari að enginn gæti trúað þessu. En hér er ég, tæpum þremur mánuðum síðar, að sverja fyrir milljarðinn,“ skrifar Kolbeinn í lokin.