Gabríel Kristinn kom, sá og sigraði í keppninni Besti ungkokkur Norðurlandanna sem haldin var í mars í Danmörku. Á laugardaginn gerði hann sér síðan lítið fyrir og vann bronsið í keppninni um Kokk ársins á Íslandi sem er magnaður árangur fyrir ungan kokk.

„Ég er bara rétt að byrja í þessu og elska að taka þátt í þessum keppnum. Ég er svo mikill keppnismaður. Að fá að deila sviðinu með öllum þessum flottu kokkum í keppninni Kokkur ársins var alveg geggjuð tilfinning,“ segir Gabríel Kristinn.

Íslenska smjörið ómissandi

Nú þegar sumarið er komið er Gabríel duglegur að grilla og finnst ávallt jafn gaman að gleðja vini sína og fjölskyldu með sælkerakræsingum. „Þegar ég er að grilla á sumrin finnst mér ómissandi að hafa íslenskt smjör með, því það er gott með öllu, kjöti og grænmeti og hægt er að nota það á marga vegu. Svo er það líka bara svo gott.“

Þegar kemur að því velja grill er Gabríel hrifnastur af kolagrilli. „Ég kýs alltaf frekar að grilla á kolagrilli því það gefur meiri karakter í grillmatinn og býður upp á miklu meiri grillstemningu. Gott hráefni skiptir alltaf miklu máli, því ferskara sem hráefnið er því meira nýturðu þess. Það er ekkert skemmtilegra en að grilla í góðu veðri með gott, vel valið íslenskt gæðahráefni,“ segir Gabríel og er hinn ánægðasti með hversu gott hráefni er hægt að fá í Bónusverslunum í dag.

Gabríel grillar mest fisk og borðar mikið af fiski almennt. „Minn uppáhaldsgrillmatur er grilluð rauðspretta með grilluðu romaine-káli, lauk og góðri smjörsósu. Algjört sælgæti.“ Þegar Gabríel er spurður hvort hann muni hvað það fyrsta sem hann grillaði var er hann með það á hreinu. „Í minningunni er það fyrsta sem ég grillaði Wellington-nautalund í útilegu með pabba, eins furðulegt og það hljómar þá heppnaðist það bara frekar vel.“

Gabríel býður hér lesendum upp á þriggja rétta sælkeramáltíð fyrir grillsumarið þar sem grillið spilar aðalhlutverkið matreiðslunni. „Þetta eru einfaldir réttir sem allir ættu að ráða við og ótrúlega ljúffengir. Það er svo frábært að grilla sjávarfang og tekur skamma stund. Svo er gaman að grilla nánast allt meðlætið með og toppa með sælkeradressingum.“

Gabríel er hrifinn af sjávarfangi og býður hér lesendum upp á girnilega þriggja rétta sælkeramáltíð þar sem tígrisrækjur og þorskurinn eru í aðalhlutverki.

Tígrisrækjusalat

1 poki tígrisrækjur, frosnar, afþíðið

Marínering fyrir tígrisrækjurnar

300 g olía

50 g srirachasósa

200 g milt chillipaste

30 g túrmerik

50 g reykt paprikuduft

20 g salt

10 g svartur pipar

30 g hvítlauksduft

1 box blandað salat frá Lambhaga

Blandið öllu saman og marínerið rækjurnar. Leyfið rækjunum að liggja í maríneringunni í sólarhring inni í kæli. Fyrir grillunina þræðið rækjurnar upp á grillspjót og grillið. Það tekur örskamma stund að grilla þær.

Pikklað fennel er frábært meðlæti.

Pikklað fennel

2 stk. fennel

Pikklunarlögur

200 g hvítvínsedik

200 g sykur

200 g vatn

Fennel skorið þunnt og síðan soðið upp á pikklunarleginum og leginum hellt yfir fennelið. Gott er að geyma pikklaða fennelið í krukku með loki.

Það er glæsilegt veisluborðið hjá Gabríel Kristni og margt nýstárlegt að sjá fyrir grillara. Þarna má til dæmis sjá grillaðan þorskhnakka og meðlæti.

Sítrónumajónes

200 g majónes að eigin vali

Safi úr einni sítrónu

Rifinn börkur af heilli sítrónu

Blandið öllu saman í skál og smakkið til með salti.

Dukkah krydd

200 g pistasíur

200 g heslihnetur

1 msk. cuminfræ

1 msk. kóríanderfræ

1 tsk. timíankrydd

3 msk. sesamfræ

1 tsk. paprikuduft

1 tsk. pipar

2 tsk. salt

Hitið ofninn í 160°C. Byrjið á því að rista hnetur og fræ í ofni í um það bil 8 mínútur. Setjið síðan ristuðu hneturnar og fræin í matvinnsluvél með kryddunum og blandið vel saman. Berið svo risarækjurnar fram á diski með blönduðu salati, pikkluðu fenneli, sítrónumajónesi, dukkah kryddi og raspið smá sítrónubörk yfir.

Grillaður þorskur er mikið ljúfmeti sem vert er að prófa.

Grillaður þorskhnakki og meðlæti

600 g ferskir þorskhnakkar/flök (fást í kælinum í Bónus)

50 g salt

50 g sykur

Byrjið á því að blanda sykri og salti saman og setjið síðan yfir vel hreinsaða þorskbita og látið liggja í 15 til 20 mínútur, fer samt svolítið eftir stærð þorsksins. Ég geri þetta því blandan lætur þorskinn haldast betur saman þegar hann er grillaður, hann dettur þá síður í sundur. Setjið síðan ólífuolíu á þorskinn og grillið á báðum hliðum í um það bil 3 mínútur á hvorri hlið.

Grillað romaine-salat með gremolata og jógúrtsósu.

Grillað romaine-salat með gremolata og jógúrtsósu

1 stk. romaine-salat

Ólífuolía og salt eftir smekk

Byrjið á því að taka ysta lagið af ljótu lögunum af. Skerið síðan í bita en munið að halda stilknum saman því annars dettur allt í sundur þegar það er grillað. Léttgrillið með ólífuolíu og salti.

Gremolata

50 g fersk steinselja

2 hvítlauksgeirar

Rifinn börkur af einni sítrónu

2 tsk. sítrónusafi (ferskur úr sítrónu)

50 g ólífuolía

Salt og pipar eftir smekk

Öllu hráefninu blandað saman í matvinnsluvél og blandað þangað til vel saxað. Smakkið til með salti og pipar.

Ég kýs alltaf frekar að grilla á kola­grilli því það gefur meiri karakter í grillmatinn og býður upp á miklu meiri grillstemningu, segir Gabríel Kristinn. fréttablaðið/anton brink

Jógúrtsósa

300 g hrein jógúrt

1 msk. saxaður graslaukur

1 msk. saxað dill

3 tsk. salt

1 tsk. paprikuduft

1 tsk. túrmerik

½ tsk. cuminduft

1 msk. sítrónusafi úr ferskri sítrónu

Blandið öllu saman í skál og hrærið. Best að gera deginum fyrir notkun svo kryddin nái að blómstra.

Volgt grillað lauksalat

2 laukar í hýðinu

1 blaðlaukur

200 g smjör

50 g saxaðar bakaðar heslihnetur

Byrjið á því að grilla lauk og blaðlauk í heilu lagi þangað til hann verður vel brenndur og mjúkur í miðjunni. Síðan er brennda húðin tekin af og aðeins grillað á sárinu og skorið í bita og sett í skál. Setjið síðan smjör í pott og sjóðið á háum hita þangað til smjörið fer að brenna, bætið þá heslihnetum við og hellið að lokum yfir lauksalatið.

Mysusmjörsósa

200 g mysa

400 g kalt smjör í kubbum

Salt eftir smekk

Sítrónusafi eftir smekk

Byrjið á því að hella mysunni í pott og sjóðið upp á henni og takið síðan af hellunni og bætið þá smjörinu út í. Blandið vel með töfrasprota þangað til blandan er komin vel saman. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Berið svo grillaða þorskinn fram með mysusmjörsósunni, grillaða lauksalatinu og grillaða romaine-salatinu með gremolata og jógúrtsósunni. Það er fallegt fyrir augað að setja salatið á disk og síðan er mjórri rönd af jógúrtsósunni sprautað yfir salatið eins og sjá má á myndinni.

Grillaðar plómur með hafra-crumble, hvítsúkkulaðirjóma og saltkaramellusósu

Grillaðar plómur

4 stk. plómur

Byrjið á því að skræla plómurnar og takið þær í tvennt til að ná steininum úr. Síðan grillið þið þær með smá ólífuolíu.

Hafra-crumble

50 g hafrar

50 g púðursykur

50 g stofuheitt smjör

50 g möndlumjöl

Byrjið á því að blanda öllu hráefninu saman og hnoðið. Dreifið síðan jafnt yfir á smjörpappír og bakið í ofni á 160°C hita í 12 mínútur. Svo er gott að brjóta blönduna niður í matvinnsluvél.

Léttþeyttur hvítsúkkulaðirjómi

500 g rjómi

80 g hvítt súkkulaði að eigin vali

Soðið er upp á rjómanum og súkkulaðinu bætt við og blandið vel saman. Setjið í kæli yfir nótt. Síðan er rjóminn léttþeyttur rétt áður en desertinn er borinn fram.

Saltkaramellusósa

80 g sykur

80 g smjör

50 g rjómi

Maldon-salt

Byrjið á því að hita rjómann í potti. Síðan er sykur karameliseraður í potti og heita rjómanum svo bætt við og þessu hrært vel saman. Þá er smjörinu pískað við og að lokum smakkað til með Maldon salti.

Setjið hafra-crumble í skál eða á disk, síðan plómurnar ofan á, hellið svo hvítsúkkulaðirjómanum yfir og toppið með saltkaramellusósunni. ■