Koddahjal - Endurhlaða eftir Sonju Kovačević er innsetning í Borgarbókasafninu Grófinni sem gefur áhorfandanum innsýn í líf hælisleitenda og flóttamanna á Íslandi.

Framsetningin er einföld; hátalarar hafa verið settir á samanbrjótanlega bedda, eins og notaðir eru sem rúm fyrir hælisleitendur, og úr hátölurum heyrast síðan fjölmargar ólíkar frásagnir.

Áhorfandanum býðst að leggjast niður og hlusta. Frásagnirnar hafa verið settar saman með það í huga að veita innsýn í líf manneskjunnar sem þær lýsa og til að gefa áhorfandanum færi á að tengjast sögu flóttamanns á nýstárlegan hátt.

Koddahjal var sýnt á Listahátíð í Reykjavík árið 2018. Verkið hefur verið lagað að Borgarbókasafninu Grófinni og samfara því verður haldin vinnustofa, en hún er hugsuð til að kveikja umræður um efnið, sem sannarlega á enn erindi við samtímann.

Sonja Kovačević er austurrískur leikhúsframleiðandi sem búsett er á Íslandi.