Formlegheit og regla um fatnað, svokallað „dress code“, í brúðkaupum, hafa látið undan frjálslyndi fólks í fatavali. Meira að segja í konunglegum brúðkaupsveislum hafa formlegheitin verið víkjandi. Gestir þurfa þó ávallt að gæta þess að taka ekki athyglina frá brúðhjónunum. Einnig ættu gestir að íhuga vel staðsetningu og íburð veislunnar þegar klæðnaður er valinn.

Blá jakkaföt fyrir brúðgumann eru mjög vinsæl um þessar mundir. Skemmtilega skreytt vesti undir þessum fötum sem Stella White sýndi á brúðarfatatískusýningu í Napólí.
Öðruvísi fatnaður fyrir brúðgumann. Skemmtilega sniðin grá föt.

Sú var tíðin að karlmenn mættu í hefðbundnum heiðursmannafatnaði á formlega viðburði eins og brúðkaup, sérstaklega var þessi klæðnaður sem nefnist „morning suit“ áríðandi hjá konungbornu fólki eða yfirstéttinni í Bretlandi. Jakkinn, sem minnir á kjólfatajakka, er síður að aftan og með einni tölu að framan. Grátt tvíhneppt vesti, hvít skyrta og gráteinóttar buxur.

Frekar síður jakki og glitvesti fyrir þennan brúðguma.
Þessi jakki er heldur óvenjulega hnepptur sem gerir fötin skemmtileg.

„Morning suit“ sést vart lengur nema hjá kóngafólki. Brúðgumar eða gestir þurfa ekki að hafa áhyggjur af slíkum fatnaði. Hins vegar er mælt með því að brúðgumar velji sér virkilega vönduð jakkaföt fyrir stóra daginn, sem hægt verður að nota lengi. Helst ættu þau að vera tímalaus. Blá jakkaföt eru góður kostur, þau eiga að vera dimmblá og alveg hiklaust með vesti. Slík jakkaföt með satínbindi, hvítri skyrtu og blómi í jakkakraganum gera karlmanninn bæði glæsilegan og hátíðlegan, eftir því sem tískuspekingar segja. Á sumrin má þó vel nota ljósari tóna í bláu og gráu, gjarnan tvíhneppt án vestis. Við slík föt ætti að nota hvíta skyrtu, svarta skó, fíngert pastellitt bindi og vasaklút í stíl.

Alveg sallafínn brúðgumi með hatt sinn í hendi.
Flottur og öðruvísi jakki sem er síðari að aftan.

Annað val er að gifta sig í svörtum eða dimmbláum smóking. Hvít smókingskyrta, svört slaufa og lakkskór eiga vel við slíkan fatnað. Smóking er þó fremur kvöldklæðnaður og giftingar eru oft á daginn svo sumum finnst það varla við hæfi. Frjálsleikinn er þó allsráðandi og vel má vera í smóking í dagbrúðkaupi, bara muna að hafa útlitið klassískt og stílhreint.

Fyrir þá sem hafa gaman af hinu listræna. Jakki með fallegu skrauti á annarri hliðinni.

Þegar brúðguminn klæðist smóking ætti að láta vita í boðskortinu að þetta sé formlegt og klassískt brúðkaup. Þá geta gestir einnig klætt sig í smóking. Svört eða dökkblá jakkaföt passa einnig vel. Ef ekkert er getið um formlegheit í brúðkaupsboðskortinu er hægt að mæta í alls kyns litum jakkafötum, dökkbrúnum skóm og fallegum skyrtum. Það þarf svolítið að meta veðurfarið þann dag sem brúðkaupið fer fram, varðandi hvernig er best að klæðast. Ef um sumarbrúðkaup er að ræða á sólskinsdegi er allt í góðu að vera í ljósum litum. Færst hefur í aukana að íslensk brúðhjón gifti sig á Ítalíu eða Spáni. Í slíkum brúðkaupum er vel hægt að vera í þægilegri hörskyrtu og stökum buxum í ljósum lit. Sem sagt að klæða sig eftir aðstæðum.