Matarvefur Fréttablaðsins færir ykkur hér köku sem er einstaklega lík þeirri sem sagt er að Elísabet heitin hafi elskað að gæða sér á. Þetta er hrákökuuppskrift úr smiðju Maríu Gomez okkar ástsælu matargyðju sem heldur úti síðunni PAZ.is og er sáraeinföld og syndsamlega ljúffeng. Svipuð kaka eins og þessi er í uppáhaldi hjá bresku konungsfjölskyldunni að hún var á boðstólum í brúðkaupi Vilhjálms prinsinum af Wales og Kate Middleton prinsessu.

Kakan er ekki bara góð heldur eins og með svo margt sem María hefur boðið upp á heldur eru hún sáraeinföld en hana þarf ekki einu sinni að baka. Hún er gerð í potti. Þér gæti fundist það hljóma eitthvað skringilega en hugsaðu aftur, rice crispies kökur eru til dæmis gerðar í potti ekki satt? „Þessi kaka hér er gerð á sama hátt, og inniheldur hún hráefni sem er eitt af mínu uppáhalds. Sport Lunch súkkulaði sem ég gjörsamlega elska og er allt of veik fyrir,“ segir María dreymin á svip.

Þið skulið ekki hræðast að gera þessa köku en hún er alveg fáránlega létt og svo þess virði að gera. Hún er stútfull af dásamlegum Sport Lunch stykkjum, svo sem betur fer eru þau á afar góðu verði í Bónus.

María mælir líka með að þið notið akkúrat þetta hafrakex sem hún nefnir en það hentaði alveg fullkomlega fyrir þessa köku. „Sniðugt er að gera þessa köku að kvöldi til, til að hafa daginn eftir en einnig má gera hana að morgni og láta þá standa í 6 tíma í kæli áður en hún er borin fram, en kökuna tekur enga stund að gera.“

Klístraður draumur 1.jpeg

Kakan – Klístraður súkkulaðidraumur Elísabetar heitinnar

225 g smjör

½ bolli bökunarsíróp eða 170 g

50 g kakó

100 g sykur

60 ml vatn eða 60 g

8 stk. af 80 g Sport Lunch stykkjum (veit það virkar mikið en trúið mér það er það ekki)

220 g McVities Digestive

Krem ofan á

120 g dökkt súkkulaði

120 g rjómi

Bræðið smjör, síróp, kakó, sykur og vatn saman í potti. Skerið Sport Lunch stykkin niður í bita (ég skar hvern kubb í 4 bita) og setjið í stóra skál. Brjótið hafrakexið í bita c.a 1,5 cm en hafið þá misstóra svona fyrir lúkkið (geymið í annari skál). Þegar allt er vel blandað saman í pottinum takið það þá af hellunni og hellið yfir Sport Lunchið í stóru skálinni og hrærið vel saman. Leyfið þessu að standa í eins og 10 mínútur. Takið þá brotna kexið og bætið því út í stóru skálina í 3 hollum og hrærið því vel saman við. Takið nú 20 cm smellumót og hellið ofan í og þrýstið kökunni vel niður í formið og setjið í frystirinn.

Byrjið svo á kreminu. Brytjið súkkulaðið niður í skál. Hitið rjómann í potti upp að suðu og hellið yfir súkkulaðið í skálinni og látið standa í 1 mínútu. Hrærið nú vel saman þar til verður að glansandi og silkumjúku kremi. Hellið yfir kökuna og setjið í kæli (ekki frysti) í lágmark 6 klukkustundir eða jafnvel yfir nótt. Berið fram með eða án rjóma.

Klístraður súkkulaðidraumur 2.jpeg

Klístraður súkkulaðidraumur 4.jpeg