„Það var búið að auglýsa þetta í heila viku og látið vita með enn lengri fyrirvara að stöðin breytist í jólastöð eins og hún hefur gert á þessum tíma undanfarin ár,“ segir Benedikt Guðnason, hjá Radíó.is, sem rekur stöðina og furðar sig á því að reglulegum hlustendum hafi brugðið við.

Benedikt segir sendum stöðvarinnar í Reykjavík einfaldlega „svissað“ tímabundið yfir á jólastöðina. „Jóla Flash Back heitir hún og hún verður bara svona rétt fram yfir áramót. Sennilega einhvern tímann milli 1. og 6. janúar en að sjálfsögðu er enn hægt að hlusta á þú hlustað á 80´s Flash Back í spilaraappinu,“ segir Benedikt.

Hann segir kvartanir óhjákvæmilega fylgja taktbreytingunni í kringum jólin. „Jújú, að sjálfsögðu fáum við kvartanir. Guð minn almáttugur. Þeir eru grjótharðir áheyrendurnir á eitís-tónlistina, skal ég segja þér. Sjálfsagt fagna líka einhverjir en þeir láta minna heyra í sér en hinir.“

Stað- og vanafesta þessa kröfuharða markhóps stöðvarinnar breyti því þó ekki að jólalögin „eru því miður vinsælli akkúrat þennan mánuð.“ Þar sem ekki gengur að spila Last Christmas með Wham! og Do They Know It´s Christmas? með breska Band-Aid tónlistarlandsliðinu þarf að teygja tímamörkin hressilega fram og aftur.

„Jólalögin eru frá öllum tímabilum og þetta „róterast“ mjög hægt til að byrja með en það breytist svolítið þegar nær dregur jólum,“ segir Bendikt og boðar fleiri jólaskreytingar á FM 101,5.

„Það verður náttúrlega opnað fyrir jólakveðjur og fleira inn á rásina í gegnum símagátt þannig að fólk getur lesið inn jólakveðjur sem safnast upp og eru síðan flutt í syrpum. Jólakveðjurnar, óskalög og annað. Þetta verður sennilega bara strax í næstu viku.“

Benedikt notar þetta tækifæri til þess að senda 80´s-hlustendum sínum „samúðarkveður en það er víst að detta í jól,“ segir hann og bætir við: „En hafið engar áhyggjur. Stöðin kemur snarlega aftur í loftið strax á nýju ári og er á sínum stað í símanum, heimasíðunni Spilarinn.is og öllu saman.“