Hugarfarsbreyting í umhverfismálum með vaxandi andúð á jarðefnaeldsneyti dregur svo hratt úr mikilvægi bensínstöðva að hjá Reykjavíkurborg eru uppi áform um að fækka þeim verulega á allra næstu árum.

Bensínstöðvar geta þó átt sér framhaldslíf í breyttum heimi eins og dæmin sanna í nágrannasveitarfélaginu Kópavogi þar sem búið er að breyta bensínstöð Olís í Hamraborg í listagallerí og gamla bensínstöðin við Kópavogsbraut hýsir nú rakarastofu, klæðskera og landslagsarkitekt.

Þar komu kærustuparið Rakel Ýr Leifsdóttir klæðskeri og Benedikt Októ Bjarnason rakari auga á ýmsa möguleika og hafa komið sér vel fyrir og fást við iðn sína ásamt Lilju Kristínu Ólafsdóttur, landslagsarkitekt og móður Benedikts.

Klippt og skorið

„Þetta byrjaði nú þannig að kærustuna mína, sem er klæðskeri, vantaði húsnæði og við vorum eitthvað að líta í kringum okkur,“ segir Benedikt, sem opnaði Rakarastólinn í gömlu bensínstöðinni í lok apríl en Rakel Ýr byrjaði að sníða og skera klæði þar í janúar. „Mamma mín er hérna líka þannig að við erum hérna öll fjölskyldan. Það er líka skemmtilegt við þetta að mamma er líka lærður hárskeri.“

Þannig að landslagsarkitektinn lætur stundum að sér kveða við rakarastólinn. „Sem er bara gaman og við getum orðað það þannig að þetta gengur mjög fínt og allir hafa nóg pláss þótt það sé ekki mikið umfram það. Það hefur líka sína kosti og galla að þurfa ekki að pæla í of stóru plássi.“

Rakarinn á bensínstöðinni ásamt klæðskeranum Rakel Ýr og Lilju Kristínu landslagsarkitekt. Fréttablaðið/Ernir

Benedikt lítur ekki á sig sem Kópavogsbúa að upplagi en tengist þó bensínstöðvarstæðinu ákveðnum fjölskylduböndum. „Pabbi er úr hverfinu og afi og amma búa hérna þannig að maður hefur svo sem alltaf verið í kringum þetta svæði.“

Eldfim tilviljun

Þegar parið hóf húsnæðisleitina bjuggu þau við Háaleitisbrautina og höfðu fyrst augastað á Olísstöðinni þar sem nú er orðin Reiðhjólaverslunin Berlin. „Þannig að við byrjuðum í rauninni á því að spyrjast fyrir um hvort hún væri laus og skoðuðum hana,“ segir Benedikt um stöðina sem reyndist full stór og hentaði því ekki.

„Þá var okkur bent á þessa bensínstöð en í rauninni snerist þetta í sjálfu sér ekkert um bensínstöð. Það var ekkert endilega málið, en samt, og þetta er náttúrlega á besta stað í hverfinu. Allt í gamla daga var byggt í kringum bensínstöð eða sjoppu,“ heldur Benedikt áfram og á honum má heyra að einhver bensínstöðvaáhugi hafi þó verið undirliggjandi og ekki alger tilviljun að dælur Atlantsolíu standa við bæði reiðhjólaverslunina og rakarastofuna.

„Það eru allir mjög glaðir með staðsetninguna þannig að nú má uppbyggingin fara að koma,“ segir Benedikt sem sér fyrir sér bjarta framtíð á svæðinu. „Borgarlínan kemur náttúrlega bara í gegn. Þannig að það verður líklega eitthvað þótt það sé alltaf spurning hvort af henni verður eða ekki. Ég býst nú reyndar við að þetta verði og maður er allt í einu orðinn mikill talsmaður Borgarlínunnar.“

Bensínlaus bygging

Bensínstöðvarhúsið hýsti Matstöðina áður en Rakel Ýr og Benedikt komu sér fyrir þannig að það var óhjákvæmilegt að lofta út og laga húsnæðið að þeirra snyrtilegu starfsemi.

„Það er engin olíubræla og það var þá frekar steikarolíubræla frekar en smurolíulykt og húsið er alveg laust við allt sem tengist bensíni þannig séð,“ segir Benedikt, en þótt rýmið eimi ekki lengur af olíum og bílabóni lifir minningin um bensínstöðina í sögunni og sjálfsafgreiðsludælunum á planinu.

Fyll'ann? Nei, stytta að aftan og taka upp fyrir eyru. Fréttablaðið/Ernir

„Þetta voru örfá handtök að koma öllu fyrir þarna. Ég viðurkenni það alveg. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að þetta hafi verið skítugt en ljóst að margir höfðu borðað þarna.“

Gólfefnum var því skipt út og rýmið var endurhannað. „En það gekk svona líka vel og við pældum líka mikið í því hvernig við gætum endurnýtt allt sem við gátum. Er það ekki í tísku í dag? Síðan var farið á Brask og brall þar sem við fengum píanó og eitthvað svona dót. Það þurfti að gera helling en samt ekkert of mikið og það er kostur að í minni stétt þekkir maður marga iðnaðarmenn og maður sneri upp á höndina á nokkrum. Eins og maður gerir bara.“

Fljótandi viðskipti

Fastakúnnar hafa löngum loðað við bensínstöðvar og sá þáttur í horfnum rekstrinum lifir enn góðu lífi. „Minn bransi er náttúrlega alveg eins. Það má alveg segja það. Maður er náttúrlega hérna flesta daga,“ segir Benedikt, sem er að sjálfsögðu með sína föstu viðskiptavini og sér auk þess oft sömu andlitin út um gluggann við bensíndælurnar.

Bensínstöðin hýsti Matstöðina á undan Rakarastólnum.

Hann segir þó aðspurður að eldsneytissala Atlantsolíu renni lítið saman við viðskiptin hjá honum og fólk sé ekki mikið að skella sér í klippingu eftir að hafa dælt á bíla sína. „Það er kannski óbeint. Fólk kemur kannski ekki beint af dælunni í klippingu en það eru náttúrlega margir sem muna eftir stöðinni og vilja koma inn og skoða.“

Benedikt segir þetta mest fólk sem þekki hverfið og vilji skoða breytingarnar og sjá hvað er í gangi. „Og segja manni sögu hússins,“ segir Benedikt, sem er orðinn fjölfróður um hina og þessa sem tengjast sögu bensínstöðvarinnar. „Þetta er alltaf gaman þótt maður sé búinn að heyra sumt nokkuð oft. Það var gaman svona fyrstu fimm skiptin,“ segir rakarinn á bensínstöðinni og hlær. ■