Menningarhátíðin Klikkuð menning fer af stað í dag í tilefni 40 ára afmælis Geðhjálpar. Hátíðin er fyrst sinnar tegundar á Íslandi. Geðhjálp verður 40 ára þann 9. október næstkomandi.

„Við vildum fagna því á góðan og fallegan hátt svo við ákváðum að halda gleðihátíð. Tíðarandinn kallar á meiri umræðu um geð og geðmál,“ segir Hildur Loftsdóttir, verkefnastjóri Geðhjálpar/Klikkaðrar menningar, í samtali við Fréttablaðið.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands opnar hátíðina með ávarpi í hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 16 í dag og eru allir velkomnir. Listamaðurinn Elísabet Jökulsdóttir tekur einnig til máls ásamt Einari Þór Jónssyni formanni Geðhjálpar og Svani Kristjánssyni prófessor við stjórnmálafræðibraut Háskóla Íslands.

Hildur segir mikilvægt að fagna fjölbreytileika í geði og sé því mikilvægt að opna upp umræðu um geð og geðheilsu, þá sérstaklega í samhengi við listir.

„Geðsjúkdómar er enn tabú í dag. Við erum öll með gott og slæmt geð og allt þar á milli. Við viljum normalísera það að tala um geðheilsu eins og við tölum um líkamlega heilsu. Það er mikilvægt að fagna því að við erum ekki öll með eins geðslag. Við höfum öll eitthvað fram að færa, eftir því hvernig persónuleika og geð við höfum. Oft er það eitthvað listrænt eins og kemur fram á þessari hátíð. Þetta er klikkuð menning,“ segir Hildur.

„Það er fegurð í geðinu, fegurð í okkar fjölbreytta geði,“ segir Hildur.

Dagskráin í dag:

Sýning listahópsins Listamenn með kvíða opnar í gallerýinu Núllið klukkan 17 en þar koma fram listamennirnir Almar S. Atlason, Heiðrún G. Viktorsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Kristín Mjöll Bjarnadóttir Johnsen, María Oddný, Melkorka Helgadóttir, Ólöf Rún Benediktsdóttir, Sólveig Pálsdóttir, Steinn Kristjánsson, Vigdís Hlíf Sigurðardóttir og Ýmir Grönvold. Sýningarstjórar eru Guðrún Heiður Ísaksdóttir og Sólbjört Vera Ómarsdóttir.

Pawel Bartoszek, forseti Borgarstjórnar, ávarpar samkomuna í Bíó Paradís klukkan 18:00 í kvöld ásamt Einari Þór Jónsson formanni Geðhjálpar.

Megas, Daníel Friðrik Böðvarsson, Davíð Þór Jónsson, Ragnheiður Gröndal, Guðmundur Pétursson, Ellen Kristjáns og Úrvalsdeildin koma fram á „klikkuðum“ tónleikum á Kex hostel frá klukkan 20:00.

Frítt er á alla viðburði.