Jogginggallinn hefur verið gífurlega vinsæll síðasta árið og skrifast það kannski að stóru leyti á heimsfaraldurinn, enda fullkominn kósíklæðnaður fyrir heimavinnuna. Erlendir tískumiðlar spá því að bíða eigi með að leggja gallanum og klæða hann frekar upp með fallegri kápu.

Síðasta árið hafa jogginggallar verið áberandi í tískuverslunum enda þægilegir en samt flottir og eyddu margir bróðurparti síðasta árs heima við. Gallar í stíl voru sérstaklega vinsælir en það er um að gera að blanda þeim saman til að fá meira út úr fataskápnum.

Það er gaman að sjá að við þurfum ekki að leggja jogginggöllunum strax og getum beðið með að henda þeim aftast í skápinn, því þeir virðast ætla að halda velli. Tískumiðlar erlendis vilja meina að það sé aðaltrendið að klæðast fínni kápu yfir gallana, það myndi ákveðna og skemmtilega andstæðu. Það eru ýmsar leiðir til að klæða þetta lúkk upp eða niður, hælaskór eða jafnvel skærlitaðir skór geta gert mikið. Vilji maður virka afslappaðri eða töffaralegri er flott að vera með húfu eða derhúfu, jafnvel sólgleraugu.

Annar listrænn stjórnandi Rotate Birger Christensen, Jeanette Friis Madsen, á tískuvikunni í London.
Þýska tískuskvísan Franzi König í fallegum grænum jogginggalla frá Arket og klæðist honum við kápu frá Zara.
Sonja Paszkowiak töffaraleg í hermannastígvélum á röltinu í Hamborg.
Framkvæmdastjóri high10art, Patricia Wirschke, flott í jogginggalla við kápu, sólgleraugun toppa svo lúkkið.
Elise Soho afslöppuð en töff. Skórnir með sokkum eru svolítið öðruvísi en það kemur samt vel út.
Tískubloggarinn Lois Opoku poppar algjörlega upp gallann og kápuna með skærlituðum skónum.
Derhúfan gerir lúkkið enn töffaralegra hjá Alexöndru Lapp.
Áhrifavaldurinn Semra Hunt í peysu í yfirstærð frá Yeezy og kápu frá MaxMara.