Klaus Ortlieb, eigandi Hlemmur Square, veðjar á góðan árangur íslenska landsliðsins á HM. Hann telur sig standa í þakkarskuld við Björgunarsveitina Ársæl eftir óveðurhremmingar í vetur og heitir peningum á hana. Upphæðin hækkar eftir því sem landsliðið kemst lengra á HM.

„Ég er stoltur af því að Ísland keppi á þessu virta heimsmeistaramóti og er þannig komið í hóp bestu knattspyrnulandsliða í heimi,“ segir Klaus í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hef mikla trú á þessum frábæru íþróttamönnum og vil nota tækifærið til þess að styrkja sjálfboðaliðana í björgunarsveitunum sem eru hornsteinn í öryggismálum á Íslandi og þá ekki síst þegar kemur að ferðaþjónustunni.“

Klaus telur sig standa í nokkurri þakkarskuld við Ársæl sem brást snarlega við þegar ljósaskilti utan á hótelinu var við það að fjúka burt í hávaðaroki í febrúar.

Sjá einnig: Húsaskilti á fleygiferð við Hlemm

Klaus heitir 200.000 krónum á Ársæl komist landsliðið upp úr 16 liða úrslitum. Upphæðin hækkar upp í 300.000 klári liðið næstu umferð, fer síðan í hálfa milljón króna og tvær milljónir ef svo ólíklega vill til að íslenska landsliðið keppi til úrslita á HM. Eitthvað sem jafnvel bjartsýnasta fólk með engar veruleikatengingar lætur sig dreyma um.

Allir leikir á HM verða sýndir í beinni útsendingu á hótelbarnum. Fyrst og fremst vitaskuld með erlenda hótelgesti í huga en Klaus vonast til þess að geta keyrt upp góða HM-stemningu á staðnum með þátttöku Íslendinga.

Hann verður þannig með leik í gangi á meðan mótið stendur yfir þar sem gestir eru hvattir til þess að veðja á hvaða lið fari með sigur af hólmi í hverjum leik. Leggja undir 1000 krónur eða meira. Þeir sem vinna veðmálin geta svo annað hvort hirt pottinn eða látið hann renna til Ársæls.

„Ég vona að landsliðinu gangi sem allra best og að við getum öll sameinast um að láta björgunarsveitina njóta árangurs liðsins í þessum mikilvæga heimsviðburði.

Ég og Hlemmur Square styðjum bæði landsliðið og björgunarsveitirnar og ég vona að sem flestir geri slíkt hið sama. Áfram Ísland,“ segir Þjóðverjinn sem segja má að svíki lit með því að taka landslið Íslands fram yfir hið margrómaða þýska stál í boltanum.