„Enga klossa, takk,“ sagði einn frægasti pinnahælahönnuður veraldar, Christian Louboutin, í september 2016, fáeinum dögum áður en breski hönnuðurinn Christopher Kane afhjúpaði byltingarkennt samstarf sitt við skófyrirtækið Crocs um vor- og sumarlínu sína 2017, þar sem finna mátti gimsteinaskreyttar útgáfur af þessum gúmmíkenndu garðklossum.

Síðan þá hefur klossaæðið bara aukist. Síðasta vor kynnti Hermès nýja og fágaða klossa þar sem notagildi mætti lystisemdum fyrir skynfærin. Skórnir seldust upp nánast samstundis og í september 2021 var því spáð að sala á Crocs-skóm myndi tvöfaldast fyrir árið 2026.

Fyrsti klossinn

Um uppruna klossans er margt á huldu enda eru viðarskór ágætis eldsmatur og brotna niður í náttúrunni. En til eru nokkrar fornar útgáfur sem gætu talist hinir fyrstu klossar. Þar má meðal annars nefna rómverska calcei- og japanska geta-klossa. Elstu eintök af hefðbundnum hollenskum klossum eða klomp, eru frá 13. öld.

Hönnuðir í klossaflensi

Það var hins vegar ekki fyrr en á sjöunda áratugnum að klossar urðu að tískuvöru. Þessi tiltekna útgáfa klossans á uppruna sinn að rekja til sænska klossans sem nefnist träskor. Skórinn var úr leðri með ferkantaðri tá og viðarsóla. Hann var hannaður þannig að auðvelt var að smella sér í þá og úr, jafnvel íklæddur ullarsokkum við útiverkin.

Eftir það féllu klossarnir í vinsældum þar til árið 1990, sem markaði upprisu ljótra/fallegra skópara, sem klossarnir tilheyra svo sannarlega.

Skófyrirtækin Birkenstock og Crocks hafa bæði komið fram með einstaklega vinsælar útgáfur af hinum sögufræga klossa. Birkenstock Boston Clog kom fram á sjónarsviðið 1979 og Crocks 2001. Sömuleiðis hefur Scholl hafið framleiðslu á eigin klossaútgáfu. Líkt og Birkenstock og Crocks hefur Scholl einnig hafið samstarf með frægum hönnuðum, en Scholl og Kate Spade afhjúpuðu Scholl Iconic skóna fyrir stuttu. ■