Berglind heldur úti síðunni Gotterí og gersemar og fór að venju létt með að hrista fram úr erminni undurfallega útskriftarveislu. Kræsingarnar og umgjörð veislunnar endurspegla listræna hæfileika Berglindar, sem er einstaklega lagin við að töfra fram glæsilegar þemaveislur.


Harpa Karin var að útskrifast úr Menntaskólanum við Sund.
„Hún er raungreinamegin í lífinu og fær þá gáfu klárlega frá pabba sínum, en ekki mér,“ segir Berglind og hlær. Hún bætir við að dóttir sín sé bæði samviskusöm og dugleg og hefji nám í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík í haust. „Hún er dugleg að vinna með náminu svo ekki gefst mikill tími fyrir áhugamál en hún elskar að ferðast, ganga á fjöll og fara í ræktina.“



Dagurinn algjörlega hennar
Mæðgurnar nutu þess að undirbúa veisluna saman.
„Það er merkisáfangi að klára stúdentspróf og að mínu mati mikilvægt að fagna og hafa gaman þótt auðvitað sé töluverð vinna að skipuleggja og halda svona veislu. Dagurinn var algjörlega hennar og snerist undirbúningurinn um það að fara í hárlitun, neglur, finna kjól, panta förðun, myndatöku og allt þetta helsta fyrir hana sjálfa. Við hin mættum síðan afgangi og redduðum fatnaði og öðru slíku korter í veislu,“ segir Berglind og hlær.


Þegar kom að því að velja þemað var það kjóllinn sem réði för.
„Við biðum þess að Harpa fyndi rétta kjólinn, sem gerðist nú ekki fyrr en viku fyrir útskrift. Kjóllinn var silfurlitaður og því ákváðum við að hafa silfurþema. Við mæðgur fórum því í Balún til að sjá hvað væri til í stíl við það og úr varð silfur, svart, hvítt og gyllt þema.“
Aðspurð segir Berglind að litirnir séu ekki beinlínis uppáhaldslitir dótturinnar.
„Hún á það alveg til að vera litaglöð líka og ég hafði nú upphaflega séð fyrir mér alls kyns vorliti í blöðrum og blómum, en svona þróaðist þetta og útkoman var klassísk og fögur.“



Veitingar við allra hæfi
„Við völdum fjölbreyttar veitingar svo allir fyndu eitthvað við hæfi, að mestu girnilega smárétti frá Nomy veisluþjónustu sem voru allir upp á tíu, hver öðrum betri og gestirnir höfðu orð á því hversu góður maturinn væri. Harpa elskar síðan að fara á Mandí svo við pöntuðum líka veislubakka þaðan. Ég sá síðan um að gera eftirréttaturn fyrir utan makkarónurnar sem komu frá Gulla Arnari, enda er hann meistari á því sviði.
Ég útbjó köku á toppinn með skilti frá Hlutprent og síðan voru bollakökur, kökupinnar, döðlugott, súkkulaðimús, kransakökubitar og makkarónur á hinum hæðunum. Elín Heiða, systir Hörpu, sá síðan um að gera borð fyrir krakkana með mínípitsum, ávöxtum, snakki, hrískökum og fleiru sniðugu því það má ekki gleyma þeim í svona veislum.“




Blöðrur, blóm og fánar
„Stelpurnar hjá Balún aðstoðuðu okkur við að velja blöðruboga og blöðrur, diska, servíettur, fána í loftið og fleira sem passaði saman og kom ótrúlega vel út. Mig langaði að hafa mikið af blómum og keypti krúttlega vasa í Fjarðarkaupum sem fylltir voru dýrindis blómum frá Garðheimum. Þar völdum við sitt lítið af hverju, bóndarósir og alls konar hvítt og grænt.“
Mæðgunum fannst líka mikilvægt að varðveita minningar frá deginum með því að taka myndir en það sem sló í gegn var myndabásinn.
„Við settum upp myndabás frá Instamyndum í bílskúrnum, sem vakti mikla lukku, og fengum gesti til að fara þangað að leika sér og taka myndir. Þegar við fengum linkinn sendan af þeim myndum var mikið hlegið og dýrmætar myndir bættust í albúmið.“

