Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar. Hver og einn bloggari er með sitt sérsvið og bókin inniheldur því afar fjölbreyttar uppskriftir frá þessum frábæru konum. Allt frá gómsætum eftirréttum og kökum til klassískra rétta, heilsurétta og einfaldra hversdagsrétta. Bókin inniheldur 120 uppskriftir og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Bókin er samstarfsverkefni sex vinsælla matarbloggara sem leggja til vinsælustu uppskriftirnar sínar.

María Gomez er með matarbloggið Paz.is sem er nefnt eftir ömmu hennar og föðursystur. Paz þýðir friður á spænsku en þangað á María einmitt rætur sínar að rekja og má segja að þaðan sé ástríða hennar og áhugi fyrir mat sprottinn. María hefur lengi verið með eitt vinsælasta matarblogg landsins og þar má finna ýmislegt sem viðkemur innanhúshönnun, framkvæmdum, og menningu en fyrst og fremst mikið og stórt safn af uppskriftum.

Þar sem María á uppruna sinn að rekja til Spánar er augljóslega nokkuð um spænskar uppskriftir og setur það skemmtilegan blæ á matinn. Það er einkar skemmtilegt og fróðlegt að lesa uppskriftirnar hennar Maríu en hún rekur sögu uppskriftanna og hvernig þær eru tilkomnar sem gefur þeim persónulegan blæ. Í bókinni Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarblöggurum leggur María til 20 af sínum allra vinsælustu uppskriftum og eru þær mjög fjölbreyttar. Þar er að finna fiskrétti, brauð og brauðrétti, kjötrétti, góðan skerf af girnilegum eftirréttum og að sjálfsögðu spænska rétti. María er með einstaklega fallegar matarmyndir svo kaflinn hennar er algert augnakonfekt og mun að sjálfsögðu væta bragðlaukana.

Þar sem María á uppruna sinn að rekja til Spánar er augljóslega nokkuð um spænskar uppskriftir á síðu hennar paz.is og setur það skemmtilegan blæ á matinn.

Gamla góða Baby Ruth tertan með smá tvisti

Hver man ekki eftir Baby Ruth marengstertunni góðu. Hún er klassísk og vinsæl í veislum eða við hvers kyns tilefni. Mér fannst hún reyndar alltaf eitthvað hálfræfilsleg svo ég ákvað að gera hana aðeins meiri B.O.B.U eða bombu. Eins og flestir vita passa salthnetur og súkkulaðirúsínur afskaplega vel saman og fannst mér ekki spurning að setja þær í rjómann. Ég held að óhætt sé að segja að kakan sé fullkomin. Hún krefst lítillar fyrirhafnar og mikils rjóma. Best er að skella í marengsinn kvöldið áður og leyfa honum svo að standa í ofninum eða upp á borði yfir nóttina.

6 eggjahvítur
2 tsk vanilludropa
6 dl sykur
2 tsk lyftiduft
140 g Ritz kex
5 dl eða 200 g salthnetur

Setjið eggjahvítur, lyftiduft, vanilludropa og sykur saman í skál og þeytið í hrærivél eða með handþeytara vel og lengi. Alveg þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að gumsið leki úr og hvíturnar eru alveg stífþeyttar.

Setjið Ritz kexið í poka og lemjið á það með kökukefli eða hendinni og miljið. Passið að mylja ekki í duft heldur bara grófar mylsnur og bita. Blandið svo salthnetunum út í pokann með kexinu og hristið vel saman.

Hellið kexinu og hnetunum út í skálina með eggjahvítunum og hrærið mjög varlega saman við. Best er að gera það með gaffli og nota mjög hægar hreyfingar, bara blanda létt saman. Ekki hræra og hræra þá fellur loftið í eggjahvítunum.

Setjið næst smjörpappír á 2 ofnskúffur eða grindur og teiknið hring á pappírinn. Setjið svo marengsin á sitthvora skúffuna inn í hringinn og bakið á 170-180 C° blæstri í 25 mínútur. Hægt að setja báða inn í einu.

Takið marengsinn út og leyfið honum að standa á borði yfir nótt eða dag. Eða… slökkvið á ofninum og leyfið honum að vera þar inni yfir heila nótt eða dag.

Best er að baka marengsinn kvöldið áður og leyfa honum að standa á borði yfir nótt. Mynd/María Gomez

Krem

Kremið á kökuna er það sem setur punktinn yfir i-ið. Það er dásamlega gott og gefur kökunni dýpt og gott súkkulaðibragð. Gott ra ð gera kremið þegar setja á kökuna saman, því það stífnar. Passið ykkur því að gera það bara á sama tíma og þið þeytið rjómann og ætlið að setja hann á.

3 eggjarauður
60 g flórsykur
50 g smjörlíki
100 g dökkt súkkulaði

Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til það er orðið loftkennt og fluffy.

Bræðið næst smjörlíki og súkkulaði saman í potti við vægan hita. Hrærið stöðugt í svo það brenni ekki.

Hellið svo súkkulaðiblöndunni hægt út í eggjaraðublönduna meðan það þeytist varlega saman.

Samsetning

Látið neðri marengsinn snúa á hvolf eða sárið upp. Þeytið saman 500 ml-750 ml af rjóma. Setjið svo súkkulaðihúðaðar rúsínur út í rjómann. Magn eftir smekk, ekki samt setja of mikið.

Setjið rjómann á milli og næsta marengsbotn ofan á með sárið niður í átt að rjómanum.

Kremið er svo sett ofan á kökuna. Mér finnst best að setja mest á miðjuna og leyfa því svo að leka að hliðunum, svo það fari ekki allt á borðið. Gott að setja bara örþunnt lag á kantana.

Ef þið viljið, þá er fallegt að setja smá rúsínur og hnetur ofan á kremið, eða jafnvel fersk jarðaber og bláber. Ef þið kjósið að hafa ber, passið þá að setja þau á rétt áður en kakan er borin fram.