Þetta hefur farið mjög vel af stað og þetta er náttúrlega kjörtíminn til að keyra á svona hugmynd,“ segir Jón Þór Þorleifsson sem ásamt félögum sínum opnaði nýlega 101 Mathöll á netinu.

„Síðan kemur þetta bara allt í einum pakka heim og engir hjónaskilnaðir og allir í stuði.“

Hugmyndafræðin á bak við stafrænu mathöllina er að sögn Jóns Þórs í grunninn sú sama og hjá þeim mathöllum sem hafa fest sig í sessi í raunheimum þar sem alls konar ólíkir veitingastaðir starfi undir sama þaki eins og til dæmis á Hlemmi og úti á Granda.

101 Mathöll er þó aðeins á netinu þar sem fólk getur pantað mat og fengið hann sendan heim. „Það er búin að vera stemning og þetta hentar einhvern veginn vel núna en þetta var á teikniborðinu áður,“ segir Jón Þór þegar hann er spurður hvort um beint COVID-viðbragð sé að ræða.

Engir skilnaðir

„Aðalhugmyndin er þessi togstreita sem ég held að allir hafi lent í þegar það er verið að panta mat og einn langar í pítsu en annan í hamborgara og svo er alltaf endað á því að panta það sama þannig að sá sem langaði í hamborgarann eða pítsuna er einhvern veginn alltaf að tapa,“ segir Jón Þór um þann sem verður undir í deilunni um hvað eigi að vera í matinn.

„Núna er þetta bara leyst á einu bretti og þú getur bara tæklað þetta allt í einu og fengið allt frá sama staðnum,“ heldur Jón Þór áfram fjallbrattur. „Þetta er náttúrlega bara fríkað. Hér er bara fullt af kokkum, geðveikt stuð og allir að elda í sinni stemningu. Síðan kemur þetta bara allt í einum pakka heim og engir hjónaskilnaðir og allir í stuði.“

Pítsa og franskar

Jón Þór er titlaður smali í símaskránni en hefur meðal annars starfað við kvikmyndagerð og er ekki síst þekktur sem fyrrverandi rokkstjóri tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður þannig að það er ekki alveg úr lausu lofti gripið að spyrja hvernig hann leiddist úr í veitingarekstur.

„Þetta bara bara skemmtileg hugmynd og þegar skemmtilegar hugmyndir koma upp þá einhvern veginn vill maður taka þátt. Ég held það sé alveg hægt að segja að þetta sé góð og skemmtileg hugmynd og svo eru góðir vinir mínir með mér í þessu,“ segir Jón Þór og fer út í enn persónulegri ástæður.

„Ég bara þoli ekki að geta ekki pantað mér mat sem mig langar í. Pítsa og franskar er það besta sem ég get fengið saman og það er hvergi hægt að panta pítsu og franskar saman nema þarna.“

Heimsending í þyrlu

Jón Þór er lausnamiðaður á fleiri sviðum veitingarekstrar þar sem hann á sér þann draum að geta sinnt heimsendingum eins og fuglinn fljúgandi. „Svo náttúrlega er ég þyrluflugmaður og draumurinn er að það komi einhvern tímann pöntun sem við þurfum að fljúga með á þyrlu. Að einhver hafi fjármagn í það. Það er aldrei að vita hvað gerist,“ segir smalinn og rokkstjórinn fyrrverandi sem tók upp á því á miðjum aldri að læra þyrluflug í Svíþjóð.

„Okkur, sem erum að búa þetta til, finnst svo gaman í vinnunni og þess vegna held ég að þetta verði alltaf bara betra og betra,“ segir Jón Þór og bendir á að mathöllin sé í stöðugri þróun, veitingastaðir bætist jafnt og þétt við og úrvalið eykst þannig að þyrlusendingarnar eru ekkert alveg út úr kortinu.

„Það þarf að vera einhver þróun og þetta er kannski bara í eðli sínu þannig að við getum leyft okkur hraðari og öðruvísi þróun,“ segir Jón Þór og bætir við að ísbúðin Valdís hafi bæst við í síðustu viku og að sushi-staður sé handan við hornið.

Letikastinu bjargað

„Svo er eitt sem maður getur lent í til dæmis á sunnudagskvöldi þegar maður er geðveikt latur, nennir ekki að elda þannig að það kemur upp hugmynd um að panta mat og allir eru í stuði fyrir það þangað til að einhver fattar að það vantar Cheerios í morgunmatinn. Eða mjólk eða ost eða brauð eða eitthvað svoleiðis. Þá kemur spurningin „eigum við ekki bara að elda?“ ef það þarf hvort eð er að fara út í búð,“ segir Jón Þór með leikrænum tilþrifum.

„Nú er ég að tapa þessum díl hérna um að panta matinn,“ heldur hann áfram þegar hann lýsir angist hins lata. „En við erum búnir að leysa það af því að Bjössabúð er hérna og þú getur pantað allt svona í leiðinni. Þannig að Bjössi sér um þetta. Ég held það geti oft bjargað letikastinu að við erum bara með litla búð hérna með einhverju svona smotteríi og við hugsum þetta þannig að þú getir þá nýtt ferðina. Síðan eru líka bara þeir sem eru í sóttkví eða eitthvað og þá er gott að geta bara líka pantað pítsu og mjólk.“